Krækjur þegar búnar að tryggja sér áframhaldandi setu í 2. deildinni
Helgina 18. og 19. janúar fór fram önnur törnering af þremur á Íslandsmóti í blaki í íþróttamiðstöðinni Varmá hjá Aftureldingu. Krækjurnar spila í 2. deild annað árið í röð eftir að hafa afþakkað sæti í þeirri 1. deild þar sem keppnisfyrirkomulag hentaði ekki liðinu.
Í 2. deild leika tólf lið og í fyrstu tveimur mótunum spila allir við alla, ellefu leiki samtals. Á þriðju og síðustu keppnishelginni fara fram A og B úrslit þar sem A riðill keppir um hverjir fara upp um deild og í B riðli þar sem barist er um að halda sér í deildinni en tvö neðstu liðin falla niður í 3. deild.
Krækjurnar sátu í 2. sæti fyrir mótið í Mosfellsbænum á eftir topp liði Sindra frá Höfn í Hornafirði eftir að hafa unnið alla sína sex leiki á fyrstu törneringunni fyrir áramót. Þær voru því í góðri stöðu. Það voru þær Elsche Oda Apel, Vala Hrönn Margeirsdóttir, Una Aldís Sigurðardóttir, Sandra Hilmarsdóttir, Helga Fanney Salmannsdóttir, Valdís Ýr Ólafsdóttir og Claudia Wilke sem fóru að þessu sinni.
„Við spiluðum fimm leiki þessa Helgi. Á laugardaginn spiluðum við þrjá þar sem við unnum ÍK og Þrótt Reykjavík örugglega 2-0 og síðasti leikur dagsins var svo gegn topp liði Sindra og var það hörku spennandi leikur sem endaði með 2-1 sigri hjá Krækjum. Á sunnudeginum spiluðum við tvo leiki, fyrri leikurinn var öruggur sigur gegn Bresa. Við töpuðum svo síðasta leiknum 1-2 naumlega í oddahrinu á móti Ými B sem er í 3. sæti,“ segir Sandra Hilmarsdóttir.
Krækjur sitja sem fastast með 28 stig í 2. sæti og munu því spila í A úrslitum í síðustu törneringunni sem fram fer á Akureyri seinni part mars. Þær hafa nú þegar tryggt sér sæti áfram í 2. deildinni að ári en koma til með að keppa um sæti í 1. deild en efstu tvö liðin í A riðli fara upp um deild.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.