Kormákur/Hvöt skrefi nær úrslitakeppninni
Lið Kormáks/Hvatar hefur heldur betur sýnt hvað í því býr í 4. deildinni að undanförnu en liðið hefur nú unnið átta leiki í röð og er í góðum séns með að skila sér í úrslitakeppni um sæti í 3. deild nú þegar ein umferð er eftir óleikin í B-riðli. Í gær fengu Húnvetningarnir lið ÍH í heimsókn á Blönduósvöll og unnu glæsilegan 6-0 sigur.
Ingvi Rafn kom K/H yfir á 23. mínútu og Diego Moreno Minguez gerði sitt fyrsta mark í leiknum á 37. mínútu en hann átti eftir að fara heim með splunkunýtt hatt-trikk á ferilsskránni þegar leik var lokið. Staðan var 2-0 í hálfleik en það var Ingvi Rafn sem bætti við öðru marki sínu á 58. mínútu. Diego bætti við marki úr víti á 79. mínútu, Bergsveinn Snær gerði fimmta mark K/H á 89. mínútu og loks kórónaði Diego dagsverkið með marki á fyrstu mínútu uppbótartíma.
Kormákur/Hvöt er nú í öðru sæti B-riðils með 32 stig og mætir liði Úlfanna í lokaumferðinni en Úlfarnir eru í fjórða sæti riðilsins. Þá mætast einnig innbyrðis liðin tvö sem eru að berjast um sæti í úrslitunum; Hvíti riddarinn (31 stig) og topplið Snæfells (34 stig). Húnvetningar þurfa því að sigra í síðustu umferðinni til að gulltryggja sætið í úrslitakeppninni.
Aðspurður um möguleika K/H að komast upp í 3. deild, ef liðið kemst í úrslitakeppnina, segir Bjarki Már Árnason, þjálfari: „Ég met það svo að við séum í góðum séns, en já, það eru erfiðir mótherjar framundan. Við erum í raun að fara i hálfgerða bikarkeppni eins og úrslitakeppnin er. Ef við spilum vel, og eins og við getum, þá eru allir vegir færir.“
Bjarki Már hefur marga fjöruna sopið og er nú meðal hefðarmanna í boltanum. Hann er kominn á fimmtugsaldurinn en segir erfitt að neita því að það sé alltaf jafn gaman í boltanum og ekki eyðileggi fyrir að hann sé í hrikalegu góðu formi nú sem geri þetta enn skemmtilegra.
Er þetta góður hópur sem þú ert með? „Já, mjög flottur og bara búið að ná að mynda öfluga liðsheild, við erum ansi samheldnir og góð stemning.“
Leikurinn gegn Úlfunum fer fram á Framvellinum í Reykjavík fyrir sunnan næstkomandi laugardag kl. 12:00. Þá verða aðrir leikir umferðarinnar þegar búnir og leikmenn K/H vita nákvæmlega hvað þarf til að tryggja sætið í úrslitakeppninni. Nú verða Húnvetningar að fjölmenna á Framvöllinn og styðja sína menn. Það er gaman saman!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.