Kormákur sækist eftir að verða Fyrirmyndarfélag ÍSÍ
Ungmennasamband Vestur-Húnvetninga varð Fyrirmyndarhérað ÍSÍ á ársþingi sambandsins sl. vor og í framhaldi af því er stefnt að því að aðildarfélög þess verði Fyrirmyndarfélög. Nú sækist Ungmennafélagið Kormákur á Hvammstanga eftir því að hljóta þá viðurkenningu á næstunni.
Nýlega fundaði Viðar Sigurjónsson, skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri, með stjórn og framkvæmdastjóra Kormáks og fór yfir vinnuna framundan. Félagið býður upp á fjölþættan íþróttaskóla fyrir 6-9 ára iðkendur fjórum sinnum í viku í samfellu við skólastarf. Einnig er boðið upp á íþróttaæfingar í mörgum íþróttagreinum fyrir iðkendur frá tíu ára aldri og upp úr s.s. í knattspyrnu, sundi, körfuknattleik, blaki, fimleikum, badminton og frjálsum íþróttum.
Fyrirmyndarfélag ÍSÍ og Fyrirmyndarhérað ÍSÍ eru gæðaverkefni íþróttahreyfingarinnar er snúa að íþróttastarfi. Með því að taka upp gæðaviðurkenningu fyrir íþróttastarf geta íþróttafélög, -deildir eða -héruð sótt um viðurkenningu til ÍSÍ miðað við þær gæðakröfur sem ÍSÍ gerir. Standist þau þessar kröfur fá þau viðurkenningu á því frá ÍSÍ og geta kallað sig Fyrirmyndarfélag ÍSÍ, Fyrirmyndardeild ÍSÍ eða Fyrirmyndarhérað ÍSÍ.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.