Jafntefli hjá norðanliðunum um helgina
Keppni hófst í 3. og 4. deild karla í knattspyrnu nú á dögunum. Tindastólsmenn áttu heimaleik gegn Austlendingum í sameiniðu liði Hugins/Hattar en lið Kormáks/Hvatar fór eitthvað suður á undirlendið og spilaði við Knattspyrnufélag Rangæinga á SS vellinum. Jafntefli varð niðurstaðan í báðum leikjunum.
Lið Húnvetninga spilar í B-riðli 4. deildar og fór leikurinn fram sl. sunnudag. Markalaust var í hálfleik en Ævar Már Viktorsson kom lið KFR yfir á 68. mínútu. Félagi hans, Jóhann Böðvarsson, jafnaði metin fyrir Kormák/Hvöt fjórum mínútum síðar þegar hann setti boltann í eigið mark og þar við sat. Sjö lið eru í B-riðli og allir þrír leikir helgarinnar enduðu 1-1 og því allt í hnút eftir fyrstu umferð. Fyrstu þrír leikir K/H eru á útivelli en fyrsti heimaleikurinn verður á Blönduósi 12. júlí þegar Álafoss kemur í heimsókn.
Daginn áður mættust Tindastóll og Höttur/Huginn á Króknum í fyrstu umferð 3. deildarinnar. Þar var sömuleiðis markalaust í hálfleik en fjörið var meira í síðari hálfleik. Ramiro David De Lillo kom gestunum yfir á 48. mínútu en Luke Rae jafnaði tveimur mínútum síðar fyrir Tindastólsmenn. Jónas Aron Ólafsson kom Stólunum yfir á 65. mínútu en De Lillo jafnaði á 81. mínútu og fleiri urðu mörkin ekki.
Heil umferð var leikin í 3. deildinni en þar leika tólf lið. Þrír leikir enduðu með jafntefli en lið Ægis, Reynis Sandgerði og KFG unnu sína leiki og eru því efst. Næsti leikur Tindastóls er gegn Vængjum Júpíters á sunnudaginn en síðan er heimaleikur gegn liði KFG laugardaginn 4. júlí.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.