Jafnt í norðanrokinu í Þorlákshöfn

Tanner Sica í baráttunni gegn liðsmanni Sindra á dögunum. Kappinn kom til landsins í lok júní og hefur skilað sínu með glæsibrag. MYND: ÓAB
Tanner Sica í baráttunni gegn liðsmanni Sindra á dögunum. Kappinn kom til landsins í lok júní og hefur skilað sínu með glæsibrag. MYND: ÓAB

Tindastólspiltar renndu í Þorlákshöfn í dag og léku við lið Ægis á Þorlákshafnarvelli í norðanroki sem hafði mikil áhrif á spilamennsku liðanna. Niðurstaðan varð sú að liðin deildu stigunum, heimamenn komust yfir í fyrri hálfleik en Tanner Sica gerði mark Stólanna í síðari hálfleik og lokatölurnar 1-1 en litlu mátti muna að Tindastólsmenn næðu sigurmarki í blálokin.

Samkvæmt upplýsingum Feykis spilaði lið Tindastóls vel gegn hvössum vindi til að byrja með og skapaði sér 3-4 ágæt færi sem fóru forgörðum. Upp úr miðjum fyrri hálfleik náðu heimamenn undirtökunum og Viktor Marel Kjærnested kom þeim yfir á 34. mínútu en markið kom eftir hornspyrnu. Stólarnir spiluðu undan vindi í síðari hálfleik en náðu ekki að nýta sér það nægilega vel. Jöfnunarmarkið kom á 65. mínútu, sömuleiðis eftir hornspyrnu, og það var sem fyrr segir Tanner Sica sem skoraði það en þetta var hans fyrsta mark fyrir lið Tindastóls en kappinn er nú að spila sitt þriðja tímabil á Króknum. Það var því kominn tími til!

Leikurinn var tíðindalítill fram á lokamínúturnar en þá fékk Konni ágætt tækifæri til að stela stigunum sem í boði voru en hann skaut í varnarmann og þaðan fór boltinn aftur fyrir endamörk. Hornspyrnan endaði í þverslánni á marki Ægis og reyndist það síðasta spyrna leiksins. Niðurstaðan í raun sanngjörn, eitt stig á lið og Stólarnir áfram í þriðja sæti deildarinnar.

Jamie McDonough, þjálfari Tindastóls, var ánægður með leik sinna manna í fyrri hálfleik. „Við vorum frábærir gegn vindinum, vorum rólegir á boltanum og spiluðum vel út úr vörninni gegn vindinum. Við sköpuðum þá 3-4 góð tækifæri við mjög krefjandi aðstæður. Í síðari hálfleik nýttum við ekki sterka stöðu okkar með vindinn í bakið, við reyndum að þvinga leikinn of mikið og fylgdum ekki leikskipulaginu okkar. Eitt stig er þó betra en ekki neitt við á erfiðum degi eins og þessum,“ sagði Jamie í spjalli við Feyki.

Næsti leikur Tindastóls er hér heima nk. miðvikudagskvöld en þá kemur lið Elliða í heimsókn en það er einskonar B-lið Fylkis. Leikurinn hefst kl. 19:00. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir