Ísak Óli Íslandsmeistari í sjöþraut
Um helgina fór fram Meistaramót Íslands í fjölþrautum í Laugardalshöllinni og gerði Skagfirðingurinn Ísak Óli Traustason, UMSS, gott mót og varð Íslandsmeistari í sjöþraut karla. Í öðru sæti varð Bjarki Rósantsson, Breiðabliki, og í þriðja sæti Andri Fannar Gíslason, KFA.
Ísak Óli fékk 5336 stig og segir á heimasíðu Frjálsíþróttasamband Íslands að það sé hans næst besta þraut frá upphafi, einungis átta stigum frá hans besta árangri sem hann náði á sama móti fyrir ári síðan. Ísak hafði mikla yfirburði um helgina og sigraði í öllum sjö greinum þrautarinnar.
Árangur Ísaks Óla í einstaka greinum:
• 60 metrar: 7,14 sekúndur
• Langstökk: 7,03 metrar
• Kúluvarp: 13,00 metrar
• Hástökk: 1,82 metrar
• 60 metra grind: 8,41 sekúnda
• Stangarstökk: 4,23 metrar
• 1000m: 2:46,01 mínútur
Í sjöþraut pilta 18-19 ára sigraði Dagur Fannar Einarsson með 4776 stig og í flokki pilta 16-17 ára sigraði Þorleifur Einar Leifsson með 3718 stig.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.