„Í næsta leik verða allir fjórir okkar bestu leikhlutar“
Það er búið að ganga frekar brösuglega hjá Stólastúlkum í körfunni að undanförnu. Liðið var lengstum í einu af tveimur efstu sætum 1. deildar fram að jólum en sex tapleikir í röð hafa heldur slegið á bjartsýninina og er liðið nú í fimmta sæti.
Feykir hafði samband við Árn Eggert Harðarson, þjálfara Tindastóls, og bað hann að fara yfir ástæður fyrir erfiðu gengi liðsins. Það er engan bilbug að finna á Árna sem er ánægður með framlag stelpnanna við erfiðar aðstæður og er hann bjartsýnn á framhaldið.
Eru meiðsli að hrjá liðið okkar, hefur kvarnast úr hópnum eða hafa andstæðingarnir styrkt sig? „Við höfum fengið ríflegan skerf af meiðslum og veikindum það sem af er vetrar. Við spiluðum tvo leiki um helgina [í Grindavík], í þeim fyrri meiðist Kristín Halla og við bíðum svara með hvenær hún kemst aftur af stað. Tess meiddist í fyrri hálfleik í seinni leiknum og við erum einnig að bíða með að sjá hvernig það þróast. Fyrir voru fyrirliðinn okkar ásamt fleirum meiddar, það er búið að ganga á ýmsu í þessum málum en það er ekki hægt að kvarta undan þeim sem spila hverju sinni. Þær leggja sig allar fram og þetta mótlæti mun gera okkur sterkari á endanum á meðan við höfum trú á verkefninu og heildarmyndinni. Hrefna Ottósdóttir lagði skóna á hilluna í desember og það er búin að vera smá aðlögun að spila án hennar, enda einn besti leikmaður deildarinnar. Það er búið að vera liðsverkefni að taka við keflinu og sú vinna er að fara að skila sér.“
Oft virðist einn leikhluti spilast illa og leikirnir tapast þess vegna. „Okkur hefur stundum gengið brösuglega í þessum fræga þriðja leikhluta en liðið hefur tekið á þeim málum og þriðji leikhlutinn verður ekki meira vandamál í vetur. Í síðustu fjórum leikjum hefur þriðji leikhlutinn verið okkar besti leikhluti. Í næsta leik verða allir fjórir okkar bestu leikhlutar. Það er óneitanlega brekka sem virkar brattari með hverjum deginum. Brattari en hún raunverulega er. Við gerum hinsvegar eins og við höfum gert í allan vetur. Pökkum góðu nesti áður en við leggjum í brekkuna, bætum í nestispakkann í hvert skipti. Reimum á okkur skóna, setjum á okkur húfuna og höldum ótrauð áfram, sama hvernig viðrar eða hversu brött brekkan er. Fullar af trú á að okkar mikla vinna muni skila sér að lokum,“ segir Árni Eggert.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.