Horfir til betri tíðar hjá knattspyrnudeild Tindastóls
Aðalfundur knattspyrnudeildar Tindastóls var haldinn þann 6. mars sl. Ljóst var að stjórn síðasta árs stóð frammi fyrir miklum vanda vegna tapreksturs fyrri ára en með samstilltu átaki, aðhaldi og mikilli vinnu náði hún að halda útgjöldum í lágmarki. Niðurstaðan var þó tap upp á 1,5 millj. miðað við 10 milljónir árið á undan þó markmiðið hafi verið að halda rekstrinum í kringum núllið en því miður tókst það ekki.
„Auðvitað voru margir hlutir sem hefði mátt gera betur, á því leikur enginn vafi – en þegar fjárhagur leyfði ekki meira var ljóst að skera þurfti ýmislegt niður,“ segir Helga Dóra Lúðvíksdóttir, gjaldkeri deildarinnar. Hún segir það yfirlýst markmið nýrrar stjórnar að taka fjárhaginn föstum tökum og sýna fram á að deildin verði rekstrarhæf. „Það kostar auðvitað einhverjar fórnir og enn meiri vinnu. Eflaust verða ekki allir á eitt sáttir með það, en við viljum byggja upp traust félag þar sem áherslan verður ekki síður lögð á barna- og unglingastarfið, við þurfum að hlúa vel að grasrótinni en við verðum einnig að hafa sýnileg verkefni fyrir þá sem koma upp úr barna og unglingastarfinu og þar höfum við okkar meistaraflokka. Eitthvað náðist að greiða niður af skammtímakröfum en langt því frá að vera ásættanlegt. Nú horfir hins vegar til betri tíðar og eigum við von á – með aðstoð góðra styrktaraðila – að ná niður skuldum og geta haldið áfram.“
Ný stjórn
Á fundinum var tilkynnt að Árni Ingólfsson, gjaldkeri, og Þórður Karl Gunnarsson, meðstjórnandi, hafi óskað eftir lausn frá stjórnarsetu. Var þeim þakkað samstarfið og þeirra vinnuframlag til ársins 2018. Þórhallur Rúnar Rúnarsson gaf kost á sér áfram í sæti formanns og hlaut hann kosningu. Indriði Þór Einarsson og Helga Dóra Lúðvíksdóttir gáfu kost á sér áfram og þá bættust við Ásta Pálmadóttir og Guðmundur Helgi Loftsson. Þessi fjögur hlutu öll kosningu og ný stjórn eftirfarandi:
Þórhallur Rúnar Rúnarsson, formaður
Indriði Þór Einarsson, varaformaður
Helga Dóra Lúðvíksdóttir, gjaldkeri
Ásta Pálmadóttir, meðstjórnandi
Guðmundur Helgi Loftsson, meðstjórnandi
Þá voru kosnir tveir skoðunarmenn: Bertína Rodriguez og Kristjana Jónsdóttir
Helga Dóra býst við skemmtilegu tímabili á öllum sviðum enda í mörg horn að líta. „Við teflum fram kvennaliði í Inkasso deild, karlaliði í 2. deild og svo auðvitað öll þau mót og leikir sem bíða yngri flokkanna. Markmið varðandi meistaraflokkana er að bæði lið haldi sig um miðja deild. Liðin munu fá einhvern aðkeyptan styrk – erlenda leikmenn – en það verður í lágmarki og verður uppistaðan í báðum þessum flokkum okkar flotta heimafólk og nærsveitungar - sem báru þetta mikið til uppi á síðasta ári.“ Helga Dóra segir sumarmótin verði á sínum stað og þegar komin góð skráning á þau. „Þar mun reyna mikið á okkar iðkendur, foreldra og aðra velunnara að leggja okkur lið svo þau megi takast sem best,“ segir hún.
Breytt uppgjörstímabil
Á fundinum var samþykkt að breyta uppgjörstímabili knattspyrnudeildarinnar þannig að aðalfundir verði haldnir eigi síðar en 15. nóvember ár hvert og að rekstrarárið verði hér eftir frá 1. október til 30. september. Telur stjórnin það eðlilegra í ljósi þess að í kringum mánaðarmótin febrúar/mars er búið að semja við þjálfara fyrir tímabilið og leita eftir samningum við leikmenn. Sé ný stjórn kjörin á aðalfundi í nóvember þá hefur hún umboðið til að leggja plön fyrir næsta tímabil og þarf ekki að taka við skuldbindingum frá fráfarandi stjórn.
„Eins ber þess að geta að á síðasta ári var stofnað barna- og unglingaráð og er það markmiðið að fjárhagur þessarar tveggja deilda eða stjórna verði aðskilinn þótt svo að þær vinni áfram í sameiningu um starfið. Barna og unglingaráð mun smám saman koma meira og sterkara inn í stjórnunina.
Í unglingaráði starfa:
Einarína Einarsdóttir
Guðmundur Helgi Gíslason
Íris Ósk Elefsen
Sigþrúður Harðardóttir
Hvað get ég gert fyrir félagið
Stjórn barna og unglingaráðs hefur enn ekki skipt með sér verkum, en það mun gerast fljótlega, að sögn Helgu Dóru. „Það er von okkar í stjórn knattspyrnudeildar Tindastóls að við getum náð samstilltu átaki, hjá iðkendum, stuðningsmönnum og styrktaraðilum félagsins, að gera umgjörð í kringum knattspyrnuna hér til fyrirmyndar og að þessi glæsilega nýja aðstaða okkar verði sú lyftistöng sem hún sannarlega getur orðið fyrir íþróttina. Við óskum eftir góðu samstarfi og að fólk sé tilbúið að leggja okkur lið við þetta verkefni – við getum þetta ekki án ykkar,“ segir hún og kallar eftir áhugasömu fólki að starfinu. „Þeir sem kunna að hafa áhuga á t.d. stjórnun í kringum sumarmótin okkar, umgjörð heimaleikja, akstur á rútu eða hverju sem tjáir að nefna, endilega hafið samband við okkur – við þurfum á ykkur að halda. Tindastóll er ekkert annað en allt fólkið sem kemur að félaginu – þið! Spyrjum okkur hvað get ég gert fyrir félagið – ekki bara hvað félagið getur gert fyrir mig! Takk fyrir alla aðstoð hingað til og hér eftir. ÁFRAM TINDASTÓLL!!!“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.