Hjörtu, lifur og lungu óskast
Góðu fréttirnar eru þær að það eru þrjár vikur í næsta leik. Vondu fréttirnar aftur á móti að lið Tindastóls átti engin svör gegn frábæru Stjörnuliði í Síkinu í kvöld. Það var pínlegt að horfa á þessi ósköp og lengi vel leit út fyrir að Stólarnir kæmust ekki yfir 50 stigin en eftir að bæði lið sendu varamenn sína inn á þá slaknaði á varnarleik gestanna. Lokatölur reyndust 58-79 og ekki hátt risið á Tindastólsmönnum innan sem utan vallar.
Leikurinn fór raunar vel af stað og bæði lið spræk á fyrstu mínútunum. Liðsheild Stjörnunnar er mjög sterk og ekki að sjá að betra lið sé á landinu um þessar mundir. Stólarnir náðu fínum kafla upp úr miðjum fyrsta leikhluta, tveir þristar frá Pétri breyttu stöðunni úr 8-7 í 14-7 og Stólarnir voru yfir 19-12 þegar ein og hálf mínúta var eftir af fyrsta leikhluta. Þá náðu Stjörnumenn vopnum sínum og jöfnuðu 19-19. Þeir náðu síðan fljótlega yfirhöndinni í öðrum leikhluta en leikurinn engu að síður jafn og spennandi. Filip Kramer kom gestunum átta stigum yfir, 24-32, með afkáralegu skoti og fékk vítaskot að auki, en það var nánast saga leiksins, Stjörnumenn skutu og Stólarnir brutu. Addú setti niður þrist úr horninu þegar rúm mínúta var eftir af öðrum leikhluta en Brynjar minnkaði muninn og staðan 30-36 í hálfleik.
Alls ekki vonlaus staða, langt frá því, en augljóst að Stólarnir þurftu að halda vel á spöðunum ef ekki átti illa að fara. Það gerðu þeir ekki því þeir héldu varla á boltanum. Þrátt fyrir ágæta baráttu þá gekk hvorki né rak í sókninni og Stólarnir gerðu urmul mistaka á báðum endum vallarins. Ef þeir unnu boltann þá voru þeir oftar en ekki búnir að glopra honum frá sér augnabliki síðar. Gestirnir náðu fljótt tíu stiga forystu og bættu við hana eftir því sem á leið. Staðan var 43-58 að loknum þriðja leikhluta og vandræðagangurinn hélt áfram í fjórða leikhluta. Stemningin í Síkinu var nánast orðin eitruð gagnvart nokkrum leikmönnum sem þóttu fá helst til of langan tíma á parketinu og sýna lítil gæði og var vel fagnað þegar heimamönnum var skipt inn á. Þristur frá Brilla kom Stólunum yfir 50 stigin þegar fjórar og hálf mínúta var eftir, staðan 51-75, en síðan fóru þjálfarar beggja liða dýpra á bekkina sína, enda Stjörnusigur í höfn.
Það er nú hálf leiðinlegt að velta sér upp úr neikvæðum hlutum en því miður var fátt jákvætt að gerast í leik Stólanna í kvöld og þá kannski sérstaklega í síðari hálfleik. Þá gekk boltinn illa, menn voru staðir og stundum eins og menn væru að bíða eftir að vörn Stjörnunnar opnaðist af sjálfu sér. Það voru helst Viðar og Pétur sem sýndu eitthvað jákvætt og Viðar fékk alltof fáar mínútur að flestra mati. Brynjar sá nánast aldrei á körfu Stjörnunnar með rakettuna Ægi Þór í andlitinu á sér mest allan leikinn. Dino og Michael voru slakir og hittni leikmanna var hroðaleg. Stólarnir settu niður 23 af 81 skoti sínu í leiknum. Það sjá það allir í hendi sér að veikleiki Stólanna er lítil hæð leikmanna. Þrátt fyrir það er áhugavert að sjá að Tindastólsmenn unnu frákastabaráttuna í kvöld, einna helst vegna þess að leikmenn hirtu 25 sóknarfráköst sem bendir til að baráttan hafi verið til staðar. Það kom þó að litlu gagni því menn hittu ekki úr skotunum sem fylgdu í kjölfarið.
Margir stuðningsmenn Tindastóls voru verulega hissa þegar ákveðið var að bæta við enn einnri snöggri skyttu, Ojo, nú í janúarlok, í stað þess að fá stóran mann. Liðið er stútfullt af einmitt þannig leikmönnum. Mönnum sem eru ekki að fá auðveld skot því andstæðingurinn veit af veikleika Stólanna inni í teig og passar vel upp á að skyttur Tindastóls fái ekki auðveld skot. Hvað eftir annað buðu Hlynur og félagar Urald og Danero í heimsókn inn í teig og þar komust þeir lítt áleiðis og töpuðu boltanum. Þetta var nánast leikur kattarins að músinni. Maður gat ímyndað sér að Arnar þjálfari Stjörnunnar væri að spila tölvuleik í Síkinu; með öðrum stýripinnanum stjórnaði hann sínu liði með glæsibrag en með hinum lét hana Stólana gera hver mistökin af öðrum – og skemmti sér vel. Tindastóll er núna lið sem virðist bara hafa plan A og plan B, að senda Helga Margeirs inn á, er ekki fyrir hendi ef hann kemst ekki í hópinn. Og ef plan A er ekki að virka þá eru Stólarnir í djúpum skít.
Í kvöld var þó verst að sjá að það vantaði alla gleði í leik Stólanna, menn virkuðu daufir og leiðir um leið og það fór að halla undan fæti. Það vantaði hjarta, lifur og lungu í liðið, eins og einn stuðningsmanna komst að orði að leik loknum. Það vantaði meiri Tindastól!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.