Hjólreiðafólk stígur fáka sína í Skagafirði á laugardaginn
Það verður nóg að gera hjá liðsmönnum Hjólreiðafélagsins Drangeyjar í Skagafirði en nk. laugardag, 4. júlí, mun félagið standa fyrir Drangeyjarmótinu sem er hluti af bikarmótinu í hjólreiðum. Þegar eru um 60 skráningar komnar í Drangeyjarmótið en gera má ráð fyrir því að þeim eigi eftir að fjölga. Keppt er í nokkrum styrkleikaflokkum karla og kvenna og auk þess er sérstakt almenningsmót sem er öllum opið.
Almenningsmótið fer af stað frá Varmahlíð kl. 9:00 á laugardaginn og er hjólaður svokallaður Blönduhlíðarhringur rangsælis. Þ.e. frá Varmahlíð, út Blönduhlíð, yfir Hegranesið á Sauðárkrók og þaðan aftur í Varmahlið. Hvetur Drangeyjarfólk alla liðtæka hjólara í héraðinu og nágrenni að taka þátt.
Bikarmótið sjálft byrjar hins vegar um kvöldið kl. 19:00 sama dag og er hjólað fram braut í Varmahlíð og út Blönduhlíð að vegamótum Siglufjarðarvegar og Sauðárkróksbrautar. Þar skiptast hóparnir, annars vegar þeir sem fara stystu leiðina og upp á Krók og þeir sem taka lengri leiðina og hjóla út í Hofsós, taka hring þar og til baka og upp á Krók. Allir flokka halda áfram frá Krók og fara alla leið upp í skíðalyftu og hafa keppendur þá hjólað 124 km og þar af rúmlega tvo km í klifur, þeir sem lengst fara. Þess má geta að frá Króknum og upp í skíðalyftu er nánast öll leiðin upp í móti og síðasti kaflinn brött og löng brekka.
Skipuleggjendur hvetja heimamenn til að koma og horfa á þennan viðburð og hvetja keppendur til dáða. Athugið að spottinn upp á skíðasvæðið verður lokaður þegar fyrstu keppendur byrja að fara þar upp. Einnig eru vinsamleg tilmæli um að sýna sérstaka aðgát á þessum leiðum í firðinum meðan keppnin fer fram og gefa keppendum pláss og forgang ef nokkur kostur.
Drangeyjarmótið var haldið í fyrsta sinn í fyrra og tókst þá með eindæmum vel, var þá hjólað við frábærar aðstæður og í einu besta veðri sumarsins. Horfur eru á fínu veðri á laugardaginn, stilltu og hlýju.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.