Hafsteinn Ingi með fernu fyrir Stólana í Lengjubikarnum
Karlalið Tindastóls mætti liði Æskunnar úr Eyjafirði í fyrstu umferð Mjókurbikarsins síðastliðinn laugardag og var spilað á gervigrasinu á Króknum. Æskan þvældist ekki mikið fyrir Stólunum sem sigruðu örugglega 5-0 og eru því komnir í aðra umferð þar sem strákarnir mæti liði Völsungs nú síðar í apríl.
Arnar Ólafsson kom Tindastólsmönnum á bragðið með marki á 16. mínútu en þá tók Hafsteinn Ingi Magnússon við keflinu og áður en yfir lauk hafði kappinn gert fjögur mörk. Fyrsta mark hans kom á 30 mínútu og hann bætti öðru við á 36. mínútu og staðan í hálfleik 3-0. Hann gerði síðan tvö mörk á tveggja mínútna kafla um miðjan síðari hálfleik, nánar tiltekið á 65. og 67. mínútu, og gulltryggði góðan sigur Tindastóls.
Ranglega var sagt frá því í Feyki að leikurinn gegn Völsungi færi fram á gervigrasinu á Króknum og er beðist velvirðingar á því. Hann verður sem fyrr segir leikinn á Húsavík.
Í sömu keppni féll lið Kormáks/Hvatar úr leik eftir að hafa tapað 5-1 fyrir Hvíta riddaranum á Varmárvelli í Mosfellsbæ. Riddararnir hvítu voru 3-0 yfir í leikhléi en mark frá Hilmari Kárasyni gaf Húnvetningum smá von í upphafi síðari hálfleiks. Sjálfsmark skömmu síðar skaut þær vonir á bólakaf og heimamenn bættu síðan við fimmta markinu skömmu fyrir leikslok.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.