Gunnar Þór og Sara sæmd starfsmerki UMFÍ

Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, afhenti starfsmerkin, og stendur hér á milli þeirra Gunnars Þórs Gestssonar og Söru Gísladóttur. Mynd: umfi.is.
Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, afhenti starfsmerkin, og stendur hér á milli þeirra Gunnars Þórs Gestssonar og Söru Gísladóttur. Mynd: umfi.is.

Gunnar Þór Gestsson og Sara Gísladóttir voru sæmd starfsmerki UMFÍ á ársþingi Ungmennasambands Skagafjarðar (UMSS) sem haldið var í síðustu viku. Gunnar Þór hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum í gegnum tíðina, verið formaður U.M.F.Tindastóls og um þessar mundir situr hann bæði í stjórn UMSS og UMFÍ. Sara hefur verið í stjórn og síðustu ár formaður Ungmenna- og íþróttafélagsins Smára í Varmahlíð og einnig verið afar virk í félagsmálum fyrir Hestamannafélagið Skagfirðing.

Á heimasíðu UMFÍ kemur fram að Sara hafi verið í stjórn og síðustu ár formaður Ungmenna- og Íþróttafélagsins Smára í Varmahlíð. Hún hefur haldið vel utan um félagið og er dugleg að fá bæði yngri kynslóðina sem og foreldra til aðstoðar þegar þess þarf á að halda.  Síðustu sumur hefur hún ásamt öðrum haldið utan um sumarnámskeið Smárans sem hafa verið afar vel heppnuð og mikil aðsókn í.  Söru er umhugað um félagið og hefur verið óeigingjörn á tíma sinn í þágu þess.

Sara hefur einnig verið afar virk í félagsmálum fyrir Hestamannafélagið Skagfirðing.  Hún hefur í nokkur ár starfað í allnokkrum nefndum á vegum félagsins svo sem eins og keppnisnefnd þar sem hún hefur verið tengiliður Landssambands Hestamannafélaga í tölvumálum.  Sara hefur einnig starfað mikið bæði í Æskulýðsnefnd Skagfirðings og verið þar mjög drífandi.
Sara er mjög drífandi og lætur verkin tala eins og sagt er.  Hún kemur hlutum í verk og er dugleg að fá fólk með sér í verkefnin.  Henni er mjög umhugað um framtíð beggja félaga og er afar mikilvægur félagsmaður  þeirra beggja.

Gunnar Þór  hefur verið viðloðandi íþrótta- og ungmennafélagshreyfinguna frá unga aldri. Gunnar æfði og lék m.a. fótbolta með Tindastóli upp alla yngri flokkana ásamt því að spila með m.fl. félagsins. Hann hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum í gegnum tíðina, verið formaður U.M.F.Tindastóls og um þessar mundir situr hann bæði í stjórn UMSS og UMFÍ.
Gunnar Þór er öflugur liðsmaður og gott að leita til hans með hin ýmsu málefni, segir á heimasíðu UMFÍ.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir