Grindvíkingar mæta í Síkið í kvöld
Síðastu umferðinni í Dominos-deildinni nú fyrir jól lýkur í kvöld og er jafnframt um að ræða síðustu umferðina í fyrri umferð deildarkeppninnar. Lið Tindastóls tekur á móti liði Grindavíkur í Síkinu og eru stuðningsmenn Stólanna hvattir til fjölmenna, enda alla jafna um skemmtilegar viðureignir að ræða þegar þessi lið mætast. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir Baldur Þór Ragnarsson, þjálfara Tindastóls.
Hvernig leggst leikurinn við Grindavík í þig? „Leikurinn leggst vel í mig. Grindavík hefur verið að spila mjög vel og verður gaman að takast á við hörkulið á heimavelli. Þeir eru hraðir með mikið af góðum skotmönnum og þeir sækja á þann styrkleika. Við þurfum að bregðast við því.“
Ertu ánægður með leik liðsins það sem af er tímabilinu? „Já, ég er ánægður með liðið, við höfum sýnt að við getum verið góðir og einnig dottið niður inn á milli. Við þurfum að halda áfram að mæta með orku á æfingar og hjálpa hver öðrum að verða besta útgáfan af sjálfum okkur. Þá munum við halda áfram að bæta okkur.“
Er Tindastóll eitthvað að skoða breytingar á mannskap í janúar? „Við erum bara að einbeita okkur að því að vinna næsta leik eins og staðan er í dag.“
Nú voru leikmenn Tindastóls grunaðir um að hafa tekið þátt í veðmálasvindli en ekkert reyndist til í því. Hvernig tókst liðið á við þetta og hefur þetta haft truflandi áhrif? „Þetta er nátturulega fyrst og fremst leiðinlegt þegar einhver segir eitthvað um þig sem er ekki satt. Við getum ekki stjórnað því. Við einbeittum okkur að því að standa saman og halda áfram að bæta hluti sem við getum stjórnað,“ segir Baldur að lokum.
Lið Tindastóls er í 2.–3. sæti í deildinni með 14 stig en lið gestanna í 7.–9. sæti með 10 stig og það er því ekki himinn og haf á milli liðanna. Gestirnir byjruðu mótið illa en hafa verið að spila vel að undanförnu líkt og Baldur Þór segir. Leikurinn hefst kl. 19:15 – allir í Síkið og áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.