Gott golfsumar - Kristján Bjarni Halldórsson skrifar
Góð aðsókn hefur verið að Hlíðarendavelli í sumar. Stjórn Golfklúbbs Skagafjarðar (GSS) lagði áherslu á að laða ferðakylfinga til Skagafjarðar. Það var gert með ýmsu móti, m.a. með fjölgun vinaklúbba og auglýsingum á samfélagsmiðlum. Í byrjun sumars var gefið út 50 ára afmælisrit GSS sem dreift var á heimili og fyrirtæki í Skagafirði. Fjölmörg fyrirtæki og stofnanir styrktu útgáfu ritsins, sem og UMFÍ og SSNV. Félagsmenn eru nú um 200 og bjart framundan.
Metfjöldi nýliða
Aukin aðsókn á völlinn var m.a. afleiðing þess að Íslendingar ferðuðust innanlands þetta sumarið. Fjölgun félaga í golfklúbbum á Íslandi var 11% að meðaltali árið 2020. GSS má vel við una þar sem fjölgunin þar var 22%. Samkvæmt iðkendatölum ÍSÍ er knattspyrna með flesta iðkendur en golf kemur næst á eftir. Golfið er þó vinsælast meðal iðkenda 30 ára og eldri. Metaðsókn var á nýliðnámskeið GSS í vor og þar mátti sjá fólk á öllum aldri. Margir skiluðu sér út á völlinn og áttu þar góðar stundir. Þegar hafa nokkrir haft samband við stjórn GSS til að taka frá pláss á nýliðanámskeiði vorið 2021.
Besti 9 holu völlur landsins
Hlíðarendavöllur fær einróma lof allra sem hann spila. Óhætt er að segja að vallarstjóri og starfsmenn hans hafi unnið frábært starf undanfarin ár. Vallarnefndin hefur staðið í ströngu í sumar. Ný kylfugeymsla var innréttuð, sett voru upp ný teigskilti, nýir teigar voru teknir í notkun, o.s.frv.
Stjórn GSS hefur áform um stækkun í 12 holu völl ef aðsókn að vellinum fer áfram vaxandi og aðalskipulag 2021 - 2035 leyfir.
Öflugt barna- og unglingastarf
GSS leggur áherslu á að efla barna- og unglingastarf. Æfingar eru alla virka daga á sumrin. Þjálfarar eru starfsmenn GSS en þar að auki fær klúbburinn reglulega heimsóknir frá atvinnumönnum eða PGA þjálfurum. Krakkarnir fá tækifæri til að taka þátt í fjölda móta. Í barna- og unglingaflokki stóð GSS fyrir Nýprent Open sem var hluti af Norðurlandsmótaröðinni. Einnig voru vikuleg innanfélagsmót haldin fyrir börn og unglinga. Starfið færist inn á Borgarflöt á veturna með reglulegum æfingum eftir áramót. Í barna- og unglingastarfinu er lögð áhersla á að hafa gaman af því að stunda golf, efla félagsfærni og þroska.
Fjöldi móta
GSS stendur fyrir fjölda móta á hverju ári. Covid hafði tiltölulega lítil áhrif á mótahaldið í sumar, en þó þurfti að lágmarka viðveru í skála og gæta að sóttvörnum í samræmi við fyrirmæli yfirvalda og reglur GSÍ. Mótin eru ýmist innanfélagsmót eða opin mót. Mótin eru styrkt af fyrirtækjum í Skagafirði. Innanfélagsmótin eru Hard Wok háforgjafarmót og KK restaurant mót og sem haldin eru vikulega yfir sumarið. Meistaramót GSS er einnig innanfélagsmót og er hápunktur sumarsins, en mótið stendur yfir í 3-4 daga. Holukeppni GSS er sömuleiðis innanfélagsmót, en holukeppnin er skemmtilegt form þar sem tveir keppa og sá sem tapar fellur úr keppni. Opnu mót sumarsins voru Advania, KS, Hlíðarkaup, Steinull, Afmælismót GSS og Kvennamót GSS. Upplýsingar um sigurvegara mótanna eru á www.golf.is
Auk ofangreindra móta voru gullteigamót fyrir þátttakendur á nýliðanámskeiði. Jónsmessumót voru endurvakin sem og Sólstöðumót.
Þar að auki hafa fyrirtæki og félagasamtök haldið mót á vellinum í samvinnu við GSS. Nefna má árlegt mót Rótarý sem haldið var 8. september, en Rótarýmenn voru frumkvöðlar að stofnun GSS árið 1970. Mótahald stendur enn yfir með síðsumarsmótum í september.
Vetrarstarf
Kylfingar GSS hafa spilað á Hlíðarenda fram í október undanfarin ár. Skammdegið og Vetur konungur hafa loks vinninginn og höggunum fækkar eftir því sem líður á haustið. Félagsmenn færa sig þá í inniaðstöðu á Borgarflöt. Þar er púttvöllur og hermir – og alltaf gott veður en nútíma hermar gera kleift að spila golf allt árið. Tækninni fleygir fram og hermarnir líkja eftir flugi kúlunnar svo aðeins skeikar nokkrum sentímetrum. Nýjustu hermarnir gefa upplýsingar sem nýttar eru til að bæta tækni og þjálfun. Á tímum Covid spillir ekki fyrir að spila má á frægustu völlum heimsins.
Afmælishóf
GSS hefur haldið upp á 50 ára afmæli klúbbsins með ýmsum hætti, s.s. afmælismóti og útgáfu afmælisrits. Stefnt er að afmælihófi GSS laugardaginn 26. september ef Covid leyfir. Það átti að vera brottfarardagur í afmælisferð félagsmanna til Póllands en hún frestast um ár.
Aðalfundur GSS verður haldinn í nóvember. Þar verður kosið í stjórn og nefndir sem starfa árið 2021.
/Kristján Bjarni Halldórsson
formaður GSS
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.