Góður sigur Tindastóls á KS vellinum
Stelpurnar í Tindstól tóku á móti liði Aftureldingar úr Mosfellsbænum á KS vellinum á Sauðárkróki í gær í blíðuveðri. Leikurinn var varla hafinn þegar fyrsta markið kom en barátta og spenna voru einkennandi á vellinum allt til loka. Lokatölur 2-1 fyrir heimastúlkum sem sjá glitta örlítið í úrvalsdeildarsæti að ári.
Stólastúlkur áttu harma að hefna frá fyrri leik liðanna, sem fram fór snemma í júlí syðra, en þá unnu Mosfellingar með sömu markatölu 2-1. Þá var engin Murr, Murielle Tiernan, með og allt annar bragur á liðinu.
Í gær var leikurinn rétt hafinn þegar Laufey Harpa Halldórsdóttir kom heimastúlkum í draumastöðu þegar hún skoraði fallegt mark, beint úr aukaspyrnu rétt utan vítateigs, staðan 1-0.
Skömmu síðar gerði ein gestanna sig seka um brot innan eigin vítateigs er hún ýtti í bakið á Kolbrúnu Ósk Hjaltadóttur sem hrasaði og umsvifalaust dæmt víti. Murr tók vítið, skoraði sitt 20. mark í sumar og varð þar með markahæst í Inkasso deildinni.
Þrátt fyrir að Stólar væru komnir með góða forystu strax í upphafi leiks var augljóst að ekki mátti slaka neitt á. Gestirnir áttu sín færi, m.a. tvö sláarskot og ágætar rispur upp völlinn sem hæglega hefðu geta endað með marki. Enda gerðist það í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar Ólína Sif Hilmarsdóttir kom boltanum í netið eftir laglegt spil og gegnumbrot.
Í seinni hálfleik var jafnræði með liðunum, ekki endilega áferðarfagur leikur í gangi en færi til staðar sem hefði verið hægt að skora úr. Það gerðist hins vegar ekki og endaði leikurinn með tveimur mörkum gegn einu Stólum í vil.
Þegar tvær umferðir eru eftir situr Tindastóll í þriðja sæti með 31 stig, fjórum stigum á eftir FH sem vermir annað sætið. Þó líkurnar séu ekki miklar þá er fræðilegur möguleiki á því fyrir Stólana að komast upp fyrir FH og þar með að koma sér í deild hinna bestu. En til þess að það geti orðið að veruleika þurfa Stólar að vinna báða sína leiki og FH að tapa sínum eða skora 17 mörkum meira en FH geri þær jafntefli í öðrum leiknum.
„Draumurinn lifir! Ekki fallegasti sigurinn en 3 stig. Takk fyrir stuðninginn. Munaði öllu!,“ skrifar Jón Stefán, annar þjálfari Stólanna á stuðningsmannasíðu knattspyrnudeildar Tindastóls.
Það vakti athygli fyrr um daginn að Jón Stefán skrifaði færslu á sömu Facebooksíðu þar sem hann hvatti fólk til að koma á KS-völlinn og styðja stelpurnar. Þar átti hann við gervigrasvöllinn en fáir höfðu heyrt af þeirri nafngift. Það upplýstist þar að nýlegur styrktarsamningur knattspyrnudeildar við KS geri m.a. ráð fyrir því að gervigrasvöllurinn yrði nefndur KS - Völlurinn. Sú nafngift hafði hinsvegar ekki verið notuð formlega fyrr en þarna, að sögn Indriða Þórs Einarssonar, varaformanns deildarinnar. Gamli grasvöllurinn, aðalvöllurinn, mun áfram heita Sauðárkróksvöllur.
Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.