Góður sigur Stólanna í geggjuðum leik
Það var boðið upp á úrvals skemmtun og háspennuleik á Sauðárkróksvelli í gær þegar lið Tindastóls og Sindra mættust á teppinu. Stólarnir byrjuðu leikinn vel og komust í 2-0 snemma en gestirnir minnkuðu muninn fyrir hlé. Þeir komust síðan yfir en lið Tindastóls girti sig í brók, skipti um gír og snéri leiknum sér í vil áður en yfir lauk. Niðurstaðan því mikilvægur 4-3 sigur og liðið er í þriðja sæti 3. deildar þegar fimm umferðum er lokið.
Það var fínasta fótboltaveður á Króknum í gær, hlýtt og hægur vindur, nánast logn á löngum köflum. Það var hinsvegar ekkert logn í fótboltanum því gestirnir fengu dauðafæri strax í byrjun. Mínútu síðar kom Konni Stólunum yfir með skalla eftir hornspyrnu. Heimamenn voru skeinuhættari næstu mínúturnar og eftir 20 mínútna leik var brotið á Benna innan teigs og Luke Rae tvöfaldaði forystu Tindastóls af vítapunktinum. Leikurinn var í ágætu jafnvægi eftir þetta og bæði lið að spila ágætan fótbolta. Á 40. mínútu voru það Hornfirðingar sem fengu dæmt víti en Atli Dagur gerði sér lítið fyrir og varði hana meistaralega ... en dómarinn taldi að hann hefði stigið af línunni og Atli uppskar því gult spjald og Cristofer Rolin skilaði boltanum í markið í seinna vítinu. Staðan 2-1 í hálfleik.
Gestirnir voru grimmir í byrjun síðari hálfleiks. Á 55. mínútu renndi Luke Rae sér í gegnum hálft lið gestanna og virtist brotið á honum á vítateig Sindra en dómarinn ákvað að ekki hefði verið um brot að ræða við litla hrifningu heimamanna – sem urðu svo enn svekktari þegar Sindramenn brunuðu upp og jöfnuðu leikinn. Þar var á ferðinni fyrrum Hvatar- og Tindastólsmaðurinn Kristinn Justiniano Snjólfsson. Rolin rúllaði svo laglega í gegnum vörn Tindastóls á 58. mínútu og kom gestunum yfir 2-3. Tindastólsmenn voru ósáttir við störf dómarans á þessum kafla en þeir náðu að setja undir sig hausinn og gaman að sjá liðið stíga upp í kjölfarið. Addi Ólafs kom inn á þegar 74. mínútur voru liðnar og hann var ekki lengi að þakka Jamie þjálfara traustið því hann skoraði með sinni fyrstu snertingu mínútu síðar, fylgdi þá eftir ágætu skoti frá Luke Rae sem markvörður gestann hálfvarði.
Bæði lið vildu augljóslega næla í stigin þrjú og koma sér betur fyrir í toppbaráttur deildarinnar. Í kjölfar jöfnunarmarksins var mómentið þó með Stólunum og þeir náðu að pressa gestina aftar á völlinn og skapa sér ágæta sénsa. Leikmenn Sindra voru þó skeinuhættir í skyndisóknum sínum. Sigurmark leiksins kom á 88. mínútu þegar Benni prjónaði sig í gegnum vörn Sindra og skoraði fínt mark sem hann fagnaði af jafnvel enn meiri krafti. Bæði lið sköpuðu sér færi það sem eftir lifði leiks en Tindastólsmenn héldu út og fögnuðu góðum sigri.
Sem fyrr segir var leikurinn hin besta skemmtun, mikið skorað, bæði lið kraftmikil og ágætlega spilandi og allt var þetta kryddað með nokkrum umdeilanlegum atvikum og meðfylgjandi sálarhita. Konni, Benni og Luke voru mest áberandi í spili Tindastóls en það verður ekki kvartað undan vinnusemi og vilja beggja liða að þessu sinni. Þá var flott að sjá að allir sem komu inn sem varamenn hjá Stólunum skiluðu sinni vinnu með prýði og leikmenn gáfu sig alla í eltingaleikinn um stigin þrjú.
Næsti leikur Tindastóls er í Þorlákshöfn næstkomandi laugardag. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.