Góður árangur á Meistaramóti
Meistaramót Íslands fyrir 11-14 ára fór fram á Sauðárkróksvelli um síðustu helgi. Um 230 krakkar voru skráðir til leiks frá 17 félögum víðsvegar um landið. Þar af voru 22 ungmenni frá ungmennasamböndunum á Norðvesturlandi.
USVH sendi fimm þáttakendur til keppni, fjóra í flokki stúlkna 12 ára og einn í flokki pilta 11 ára og stóðu þau sig öll með prýði. Bestan árangur þeirra átti Victoría Elma Vignisdóttir sem varð Íslandsmeistari í spjótkasti, Saga Ísey Þorsteinsdóttir sem hafnaði í 5. sæti í hástökki og Bragi Hólmar Guðmundsson sem varð annar í langstökki og 600 m hlaupi og þriðji í 60 m hlaupi. Þá hafnaði hann í 4. sæti í spjótkasti. Stúlkurnar fjórar tóku svo þátt í boðhlaupskeppninni og enduðu þar í 5.sæti.
Frá USAH komu níu keppendur. Frá Hvöt kepptu einn í flokki 11 ára og tveir í flokki 14 ára stúlkna og einn piltur í flokki 11 ára og frá Fram komu þrjár stúlkur, 12, 13 og 14 ára og tveir drengir, 12 og 13 ára. Harpa Katrín Sigurðardóttir vann silfur í spjótkasti og varð þriðja inn í úrslit af 33 stúlkum í 60 m hlaupi en hafnaði í 5. sæti eftir úrslitahlaupið. Aðalheiður Ingvarsdóttir varði Íslandsmeistaratitil sinn í spjótkasti þegar hún kastaði spjótinu 30.66 m. Unnur Borg Ólafsdóttir vann þrenn bronsverðlaun á mótinu, í 80 m grind, í langstökki og í spjótkasti. Valdimar Viggó Baldursson varð svo í fimmta sæti í kúluvarpi 13 ára pilta með kast upp á 8,64 m.
UMSS átti 13 þátttakendur sem kepptu í sex flokkum. Bestum árangri þeirra náði Súsanna Guðlaug Halldórsdóttir sem varð í þriðja sæti í kúluvarpi í flokki 11 ára stúlkna og Hallgerður H.V. Þrastardóttir sem varð í fjórða sæti í kúluvarpi í flokki 12 ára stúlkna.
Fréttin hefur verið uppfærð en vegna misskilnings var keppenda frá Fram ekki getið í upphaflegu fréttinni. Eru þeir beðnir innilegrar afsökunar á mistökunum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.