Garðbæingar mæta á Krókinn á sunnudag
Það er fótbolti um helgina. Til stóð að lið Tindastóls og Knattspyrnufélags Garðabæjar (KFG) mættust á Króknum í kvöld en leiknum hefur verið frestað til sunnudags. Kvennalið Tindastóls spilar aftur á móti í höfuðborginni í kvöld og eru stuðningsmenn hvattir til að fjölmenna á Víkingsvöllinn og styðja vel við bakið á stelpunum.
Mótherjar þeirra eru lið Víkings sem féll úr efstu deild síðasta haust en Víkingar hafa ekki farið vel af stað í Lengjudeildinni. Gerðu jafntefli við lið ÍA og tapaði síðan fyrir Aftureldingu. Okkar stelpur eru hins vegar með fjögur stig eftir tvær umferðir en þær sigruðu Aftureldingu í fyrstu umferð en gerðu síðan jafntefli við topplið Keflavíkur.
Ástæðan fyrir því að leikur Tindastóls og KFG var færður aftur um tvo daga í 3. deildinni er sú að sex leikmenn KFG eru í sóttkví en reglur KSÍ segja að leikur skuli fara fram nema fleiri en fimm leikmenn liðs séu í sóttkví. Tveir af þessum sex verða lausir úr kvínni á sunnudaginn og því var leikurinn settur á kl. 19 á sunnudag. Spilað verður á lifandi grasi enda Sauðárkróksvöllur orðinn fagurgrænn og fallegur.
Þá leika liðsmenn Kormáks/Hvatar þriðja leik sinn á tímabilinu nk. mánudag en þá mæta þeir liði Snæfells á Stykkishólmi. Húnvetningar lutu í gras gegn Stokkseyri í lok júní, 2-1, en heimamenn fyrir austan komust yfir snemma leiks. Pálmi Þórsson jafnaði fyrir hlé en Stokkseyringar gerðu sigurmarkið nokkrum mínútum fyrir leikslok.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.