Flautukarfa frá Degi Kár færði Grindvíkingum sigur í frábærum leik
Það var boðið upp á hraðan og skemmtilegan leik í Síkinu í kvöld þegar Tindastóll tók á móti sprækum Grindvíkingum. Einhvernveginn tókst gestunum á hanga í Tindastólsmönnum framan af leik og þegar til kom þá voru það Grindvíkingar sem höfðu innanborðs tvo kappa sem hreinlega stálu stigunum með geggjuðum leik, þá Dag Kár og Ólaf Ólafs. Stólarnir hreinlega réðu ekki við þá í kvöld. Lokatölur 98-101.
Það voru þrír bestu menn Tindastóls í kvöld sem gerðu fyrstu körfurnar fyrir Tindastól; þeir Björgvin, Hester og Helgi Viggós. Sömuleiðis voru það þrír bestu menn Grindvíkinga; þeir Dagur Kár, Ólafur og Lewis Clinch Jr. sem gerðu fyrstu körfurnar fyrir gestina og það var jafnræði með liðunum framan af fyrsta leikhluta. Um miðjan leikhlutann náðu Stólarnir góðum takti í leik sinn og náðu á skömmum tíma tíu stiga forystu, 25-15. Þristur frá Degi Kár minnkaði muninn í 32-24 í þann mund sem leikhlutinn kláraðist.
Gestirnir klóruðu í bakkann í upphafi annars leikhluta en tvö stig frá Helga og þristur frá Finnboga breyttur stöðunni í 39-31. Í hönd fór mikill baráttukafli og alveg ljóst að Grindvíkingar ætluðu ekki að gefa þumlung eftir. Þeim gekk vel að eiga við kraftmikinn varnarleik Tindastóls og leikurinn verður að sjálfsögðu talsvert auðveldari ef stóru skotin detta – og þau duttu oft hjá gestunum í kvöld. Þeir voru með 44% 3ja stiga nýtiingu en Stólarnir, sem voru frekar sparir á skotin, aðeins með 24% nýtingu. Grindvíkingar minnkuðu muninn í tvö stig og heimamenn fóru illa með þrjú lay-up og munaði um minna. Staðan í hálfleik 50-48.
Hester fór mikinn í byrjun þriðja leikhluta og Stólarnir náðu 10 stiga forystu. Dagur Kár gerði þá fimm stig og Grindvíkingar komnir í seilingarfjarlægð. Munurinn yfirleitt fjögur til átta stig á liðunum. Þegar fjórar mínútur voru liðnar fékk Hester tvær villur á skömmum tíma og var kippt á bekkinn. Án hans gerðu Tindastólsmenn vel í því að halda muninum og staðan 75-70 þegar þriðji leikhluti var úti.
Helgi Margeirs kom Stólunum í 80-72 snemma í fjórða leikhluta og hann bætti við öðrum þristi tveimur mínútum síðar og Björgvin bætti við tveimur stigum og jók muninn í 89-80 þegar sex mínútur voru eftir. Þá gerðu Grindvíkingar ellefu stig í röð og náðu forystunni, 89-91, með þristi frá Ólafi. Viðar jafnaði en þá bætti Ólafur bara við tveimur þristum eins og ekkert væri sjálfsagðara. Gestirnir skyndilega komnir sex stigum yfir og ein og hálf mínúta eftir. Stólarnir misstu síðan boltann en Björgvin náði að stela honum aftur við miðlína, geystist upp og tróð með tilþrifum. Hann bætti við tveimur stigum stuttu síðar og aftur unnu Stólarnir boltann og Hester fékk tvö víti. Hann nýtti annað og minnkaði muninn í eitt stig. Dagur Kár fékk tvö vítaskot og nýtti sömuleiðis annað skotið og staðan 96-98. Stólarnir réðu ráðum sínum og ákváðu skynsamlega að leita að Hester, eins og hafði gefist ljómandi vel fram til þessa, og hann átti að skila tveimur stigum og tryggja framlengingu. Þetta gekk upp, Hester skoraði af harðræði og fjórar sekúndur eftir þegar Grindvíkingar grýttu boltanum inn á Dag Kár sem brunaði upp völlinn með varnarmenn oní sér og hann náði ómögulegu skoti um leið og flautan gall – beint oní!
Sannarlega vonbrigði að tapa þessum geggjaða leik en Dagur Kár (31 stig) og Ólafur (33 stig) voru hreinlega óspilandi (!) á löngum köflum í leiknum; Dagur Kár með 5/7 í þristum og Ólafur 7/10. Þetta er bara ólöglegt og á að kæra til lögreglunnar! Á meðan gestirnir settu niður 14 þrista duttu aðeiin fimm slíkir hjá Stólunum. Leikurinn vannst því utan þriggja stiga línunnar í kvöld.
Í liði Tindastóls var Hester sterkur sem endranær, þvílíkur kraftur í kappanum. Hann gerði 29 stig og tók níu fráköst en villuvandræði urðu til þess að hann spilaði rétt tæpar 29 mínútur. Björgvin var frábær í kvöld með 22 stig og tíu fráköst. Helgi Viggós skilaði tólf stigum og tók fimm fráköst og Pétur, sem var óvenju rólegur í kvöld (tók aðeins eitt 3ja stiga skot) gerði tíu stig. Þá áttu Hannes, Viðar, Finnbogi og Helgi Margeirs ágætan leik og liðið lék lengi framan af fínan bolta en þeir náðu ekki að sprengja gestina af sér að þessu sinni.
Þrátt fyrir tapið eru Stólarnir enn í öðru sæti Dominos-deildarinnar þar sem Haukar gerðu sér lítið fyrir og sigruðu Stjörnuna og björguðu sér þannig frá falli. Það hefur greinilega haft góð áhrif á liðið að senda Ívar þjálfara í skíðaparadís og kannski eitthvað sem önnur lið ættu að reyna?! Síðasti leikur Stólanna er einmitt gegn Haukum í Hafnarfirði, sem oft hafa reynst okkar mönnum erfiðir, og fer lokaumferðin fram næstkomandi fimmtudagskvöld. Á sama tíma mætast KR og Stjarnan í Vesturbænum og þá ræðst hverjir mæta hverjum í úrslitakeppninni.
Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.