Enn verður þriðji leikhlutinn Stólastúlkum að falli
Tindastóll og Njarðvík mættust í Síkinu á laugardag í mikilvægum leik í 1. deild kvenna í körfubolta. Nú er baráttan um sæti í úrslitakeppni 1. deildar í algleymingi og Tindastólsstúlkur mega ekki misstíga sig mikið ef þær ætla að eiga séns á einu af fjórum efstu sætum deildarinnar. Það var því skellur að tapa gegn Njarðvíkurstúlkum í leik sem var jafn og spennandi – nema í þriðja leikhluta þar sem gestirnir kaffærðu heimastúlkur og gerðu út um leikinn. Lokatölur 70-86.
Lið Tindastóls var að spila ágætlega á upphafsmínútum leiksins og komst í 12-6 en gestirnir voru fljótir að snúa leiknum sér í hag og fjórum mínútum síðar var staðan 16-20 fyrir Njarðvík sem leiddi 18-20 að loknum fyrsta leikhluta. Gestirnir gerðu sex fyrstu stig annars leikhluta og náðu undirtökunum í leiknum. Lið Tindastóls átti nokkur áhlaup og munurinn á liðunum yfirleitt tvö til sex stig. Tess gerði þrjú síðustu stigin í hálfleiknum og staðan 34-36 fyrir Njarðvík.
Þriðji leikhluti hefur reynst liði Tindastóls erfiður upp á síðkastið og það varð engin breyting á því á laugardaginn. Njarðvíkurstúlkur komu gríðarlega grimmar til leiks og hirtu nánast öll fráköst sem í boði voru, hvort sem það voru varnar- eða sóknarfráköst. Á þessum kafla var Kristín Halla meidd á bekknum og munaði um minna. Munurinn var orðinn tíu stig eftir tæplega þriggja mínútna leik og tuttugu stig þegar leikhlutinn var úti. Staðan 47-67. Kristín Halla kom meidd inn á í upphafi fjórða leikhluta og þó hún væri nánast á annarri löppunni þá skánaði varnarleikur Tindastóls til muna. Sóknarleikur Tindastóls snérist um að láta Tess klára sem flestar sóknir, enda langbest Stólastúlkna í leiknum, en það dugði skammt þó hún gerði 15 stig í leikhlutanum. Lið Njarðvíkur náði mest 24 stiga forystu snemma í leikhlutanum en heimastúlkur náðu með góðri baráttu að minnka muninn í ellefu stig, 69-80. Lið Njarðvíkur átti þó ekki í vandræðum með að landa sigrinum í lokin.
Tess Williams var yfirburðakona í liði Tindastóls og var með helming allra framlagspunkta liðsins, 37 af 74. Hún gerði 34 stig og tók sjö fráköst. Eva Rún komst vel frá sínu og gerði 11 stig og tók sex fráköst. Aðrir leikmenn liðsins áttu ekki góðan leik þó reyndar megi geta þess að Valdís Ósk setti niður þrjá þrista í sex tilraunum. Njarðvíkurmegin var Jóhanna Páls sjóðheit og setti niður sex þrista og endaði með 20 stig og sex fráköst. Best í liði þeirra var þó Vilborg Jóns sem náði 11 stigum, 10 fráköstum og 11 stoðsendingum!
Skotnýting liðanna var ekki ósvipuð, lið Tindastóls með 38% og Njarðvík með 40%, en lið Njarðvíkur hirti tíu sóknarfráköstum meira en heimastúlkur og áttu því ríflega tíu fleiri skot í leiknum og það munar um það.
Sem fyrr segir eru það fjögur efstu lið 1. deildar sem fara í úrslitakeppni um sæti í efstu deild en aðeins eitt lið kemst upp um deild. Lið Tindastóls er sem stendur í fimmta sæti deildarinnar með 16 stig en ÍR og Njarðvík eru bæði með 18 stig og hagstæðari innbyrðisstöðu gagnvart liði Tindastóls. Fjölnir, sem blm. Feykis taldi vera með besta lið deildarinnar fyrir viku, tapaði heimaleik gegn B-liði Keflavíkur um helgina og náðu Suðurnesjastúlkur því efsta sætinu af andstæðingum sínum. Er Keflavík b með 22 stig en Fjölnir 20. Það getur því allt gerst ennþá. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.