Enn einn sigurinn í hús hjá Stólastúlkum
Í dag mættust lið Tindastóls og Augnabliks úr Kópavogi á gervigrasinu á Króknum. Þetta var fyrsti leikurinn í 14. umferð Inkasso-deildarinnar og ljóst að með sigri þá héldu Stólastúlkur veikri von um sæti í efstu deild lifandi. Það fór svo að lið Tindastóls reyndist sterkari aðilinn og uppskar 3-1 sigur en Murielle Tiernan gerði tvö mörk í síðari hálfleik eftir að Laufey Harpa náði forystunni fyrir lið Tindastóls í fyrri hálfleik.
Það var áfram þetta hressilega sumarveður á Króknum í dag, norðanstrekkingur og kuldaboli en sólin skein þó á völlinn mestan partinn. Það var því ansi duglegur hliðarvindur sem bæði lið máttu berjast við í 90 mínútur. Jafnræði var með liðunum framan af og fengu gestirnir fyrsta færi leiksins en Lauren varði vel í marki Tindastóls. Murr fékk nokkur ágæt hálffæri en hún náði ekki nógu miklum krafti í skotin til að trufla Telmu Ívars í marki gestanna. Stólastúlkur náðu að bjarga á marklínu eftir að Lauren hafði hálfvarið skot gestanna en það var loks á 37. mínútu sem ísinn var brotinn. Þá eltu Vigdís Edda og Telma markvörður Augnabliks boltann út úr teignum upp við endamörk, Telma náði að sparka frá en boltinn datt fyrir vinstri bakvörð Stólanna, Laufeyju Hörpu, sem lagði boltann fyrir sig og átti síðan glæsilega spyrnu í fjærhornið á marki gestanna. Staðan 1-0 í hálfleik.
Eftir um tíu mínútna leik í síðari hálfleik komst Eva Rún inn fyrir vörn gestanna og komst í boltann á undan Telmu í markinu sem lenti harkalega á Evu og vítaspyrna staðreynd. Eva Rún varð að yfirgefa völlinn sökum meiðsla og var þá búin að vera inn á í tíu mínútur. Murr skoraði af öryggi úr vítinu og næstu mínúturnar var lið Tindastóls baráttuglatt og reyndi mikið að koma boltanum á Murr og Vigdísi. Á 65. mínútu gerði Murr þriðja mark Tindastóls. Hún fékk fasta sendingu fram þar sem hún var með bakið í markið, kassaði boltann inn fyrir vörn Augnabliks og hún reyndist síðan sterkari á sprettinum en varnarmennina og renndi boltanum framhjá Telmu í markinu. Ótrúleg knattspyrnukona og svona mörk gerir engin nema Murr. Hún mætti samt fagna mörkunum aðeins meir svona til að gleðja áhorfendur. Eftir þetta komust gestirnir meira inn í leikinn og þeir jöfnuðu á 80. mínútu eftir röð mistaka í vörn Tindastóls. Ekki tókst þeim að minnka muninn frekar og lokatölur því 3-1.
Frammistaða Tindastóls var fín í dag og allar stóðu stelpurnar vaktina með prýði. Liðið er án nokkurra lykil leikmanna eins og Jackie, Kristu og Guðrúnar Jennýar. Bryndís fór fyrir sínu liði með krafti og dugnaði. Laufey Harpa var öflug að venju, Hrafnhildur góð á miðjunni og Murr stórhættuleg frammi með Vigdísi Eddu eins og óða flugu í kringum sig.
Lið Tindastóls er sem fyrr í þriðja sæti deildarinnar með 25 stig með þessa geggjuðu markatölu, 35-32. Eins og sagði í inngangi er enn líf í voninnu um sæti í efstu deild að ári en það er nú varla raunhæft, lið Þróttar og FH eru einfaldlega með bestu liðin í deildinni þetta sumarið og fátt sem kemur í veg fyrir að þau tryggi sér sæti í Pepsi Max-deildinni. Næst mæta stelpurnar liði Grindavíkur suður með sjó og um að gera fyrir stuðningsfólk Tindastóls að fjölmenna á Mustad-völlinn næstkomandi laugardag en leikurinn hefst kl. 16.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.