Ekki kemur titillinn á Krókinn í vor
Í dag tók Körfuknattleikssamband Íslands ákvörðun þess efnis að ekki verður keppt frekar á keppnistímabilinu 2019/2020. Núverandi stöðutafla er því lokastaða Dominos-deilda og 1. deilda. Það þýðir að lið Tindastóls endaði tímabilið í þriðja sæti Dominos-deildar karla, sæti ofar en vinir okkar úr Vesturbænum. Það er nú alltaf gaman.
Niðurstaða KKÍ var sú að Stjarnan er deildarmeistari í Dominos-deild karla og Fjölnir fellur í 1. deild. Þór Akureyri heldur sæti sínu í efstu deild. Engir Íslandsmeistarar verða krýndir í ár þar sem engin úrslitakeppni fer fram. Lið Hattar á Egilsstöðum fær sæti í Dominos-deildinni en það var efst í 1. deild karla þegar keppni var hætt.
Í Dominos-deild kvenna er Valur deildarmeistari og Fjölnir deildarmeistari í 1. deild kvenna og fer upp um deild á kostnað Grindvíkinga.
Þessar ákvarðanir KKÍ ríma við skoðanir Ingólfs Jóns Geirssonar, formanns Kkd. Tindastóls, í viðtali í Feyki í dag. Þar kom einnig fram að þrír leikmenn Tindastóls höfðu í vikunni beðið um leyfi til að halda heim á leið í ljósi aðstæðna og var að sjálfsögðu orðið við óskum þeirra. Þeir leikmenn sem vildu halda heim voru Deremy Geiger, Jasmin Petrovic og Sinisa Bilic. Fjórði erlendi leikmaður Tindastóls, Jaka Brodnik, er á Króknum með sinni konu.
Það má því segja að nú hellist hver ótíðindin af öðrum yfir okkur. Ekki nóg með að búið sé að aflýsa yfirvofandi sigri okkar Íslendinga í Eurovision heldur hefur nú verið tekin ákvörðun um að hætta keppni á Íslandsmótinu í körfubolta 2019-20. Það er því ljóst að ekki verða Tindastólsmenn Íslandsmeistarar í vor líkt og stefnt var að.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.