Ekki hljóp á snæri Stólanna á Nesfiskvellinum
Þriðja umferð í 2. deild karla hófst í gær og hélt lið Tindastóls suður í Garð þar sem þeir öttu kappi við spræka Víðispilta. Heimamenn náðu undirtökunum snemma leiks og ljóst í hálfleik að Stólarnir þyrftu að skora minnst þrjú mörk í síðari hálfleik til að fá eitthvað út úr leiknum. Það hafðist ekki og 3-0 tap staðreynd.
Ari Steinn Guðmundsson gerði fyrsta mark leiksins á 5. mínútu og á 19. mínútu bætti Helgi Þór Jónsson við öðru marki Víðis. Mehdi Hadraoui gerði þriðja mark heimamanna á 37. mínútu og staðan 3-0 í hálfleik. Tindastólsmenn náðu að fylla betur í varnargötin í síðari hálfleik og héldu þá hreinu en ekki tókst þeim að koma boltanum í mark Garðsverja.
Þriðja tapið í þremur leikjum hjá Tindastólsmönnum og markatala liðsins 0-8. Fannar Örn Kolbeinsson fyrirliði Stólanna og Jonathan Faerber markvörður spiluðu fyrstu leiki sína í 2. deildinni þetta sumarið og vonandi fara strákarnir að breiða út vængina og taka flugið.
Næsti leikur er gegn liði Dalvíkur/Reynis nk. föstudag kl. 19:15 og fer leikurinn fram á Sauðárkróksvelli. Eyfirðingarnir eru komnir með tvö stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar, hafa nælt í tvö jafntefli og verða örugglega erfiðir viðureignar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.