Ekkert óeðlilegt við leik ÍR og Tindastóls

Uppi varð fótur og fit í lok síðustu viku eftir að kvisast hafði út að grunur væri um veðmálasvindl tengt leik ÍR og Tindastóls í Dominos-deild karla sem fram fór sl. fimmtudag. Vísir.is greindi strax frá því að leikmenn Tindastóls lægju undir grun þó hvergi hafi komið fram einhver rökstuðningur varðandi það, aðeins að lið Tindastóls tapaði leiknum en það hefur reyndar komið fyrir áður að leikir hafi tapast í Breiðholtinu. 

Einhver benti á að það væri skondið að lið Tindastóls væri álitið það gott að ef það tapaði leik þá væru leikmenn þess grunaðir um veðmálasvindl. Það er hins vegar ekkert grín að vera sakaður um svindl og nú í ljósi þess að niðurstaðan í rannsókn KKÍ á leiknum hafi verið sú að ekkert óeðlilegt hafi átt sér stað, finnst mörgum sem leikmenn Tindastóls og körfuknattleiksdeildin eigi í það minnsta skilið afsökunarbeiðni frá þeim sem gáfu sterklega í skyn að leikmenn Tindastóls hefðu gerst sekir um glæp. Það er ekki léttvægt.

Í yfirlýsingu frá KKÍ sem lesa má hér að neðan kemur fram að sambandið hafi skoðað leikinn gaumgæfilega til að fara yfir frammistöðu leikmanna auk þess sem farið var  fram á að Íslenskar getraunir skoðuðu leikinn og veðmál honum tengd og kom ekkert óeðlilegt þar í ljós og heldur ekki hjá Global Lottery Monitor System, fyrirtæki sem fylgist með óeðlilegum hreyfingum og stuðlabreytingum á markaði. 

Niðurstaðan er því sú að leikmenn Tindastóls eru saklausir og ástæðan fyrir breytingum á stuðli skömmu fyrir leik líklegast tengd erfiðum aðstæðum Tindastóls-liðsins fyrir leik; tveggja daga rafmagnsleysi á Króknum og öllu sem því fylgdi auk erfiðs ferðalags suður yfir heiðar með tilheyrandi frestun á leik.

 

YFIRLÝSING FRÁ KKÍ

Fljót­lega eft­ir að leik ÍR og Tinda­stóls í Dom­in­os-deild karla lauk, kom upp orðróm­ur um að úr­slit­um leiks­ins hefði verið hagrætt og gefið sterk­lega í skyn að leik­menn Tinda­stóls hafi átt þar hlut að máli. Það er ljóst eft­ir skoðun KKÍ á leikn­um að leik­menn Tinda­stóls hafi ekki komið að hagræðingu úr­slita á leikn­um og eiga eng­an hluta að þess­um breyt­ing­um á for­gjöf/​stuðlum.

Ástæðan fyr­ir þess­um sterka orðrómi var sú að for­gjöf/​stuðlar á leik­inn hefðu breyst mjög hratt á skömm­um tíma úr því að Tinda­stóll myndi vinna leik­inn yfir í að Tinda­stóll myndi tapa leikn­um. Í kjöl­farið á þess­um orðrómi ákvað KKÍ strax að grípa til aðgerða, enda er hagræðing úr­slita ein mesta ógn sem íþrótta­hreyf­ing­in stend­ur fyr­ir nú á tím­um.

KKÍ hef­ur fengið ein­stak­linga til að skoða leik­inn og fara yfir frammistöðu leik­manna bæði í vörn og sókn með það í huga að sjá hvort eitt­hvað óeðli­legt hafi átt sér stað.

Niðurstaðan er sú að svo sé ekki.

KKÍ óskaði eft­ir aðstoð frá Íslensk­um get­raun­um, sem eru í eigu íþrótta­hreyf­ing­ar­inn­ar, um að fyr­ir­tækið léti skoða leik­inn sér­stak­lega.

Niðurstaðan er sú að ekki var tippað óeðli­lega á leik­inn hjá Íslensk­um get­raun­um.

Enn frem­ur var leitað til GLMS, Global Lottery Monitory System, sem er fyr­ir­tæki í eigu get­rauna­fyr­ir­tækja sem hef­ur það að mark­miði að fylgj­ast með óeðli­leg­um hreyf­ing­um og stuðlabreyt­ing­um á markaði. Meðal sam­starfsaðila GLMS eru Europol, In­terpol ofl. Niðurstaða GLMS er að ekki séu lík­ur á að um hagræðingu úr­slita sé að ræða.

All­ar lík­ur eru á að þegar það verður á allra vitorði að Tinda­stóll hafði ferðast í rútu í nokkra klukku­tíma til að kom­ast í leik­inn og að leiktíma hafi verið breytt úr 19:15 í 20:00 ör­fá­um klukku­tím­um fyr­ir leik að þá hafi nokkr­ir tipp­ar­ar talið að ferðalagið myndi sitja í liðsmönn­um Tinda­stóls og að sig­ur­lík­ur ÍR hefðu þar að leiðandi auk­ist. Viðkom­andi tipp­ar­ar hafi því tippað á for­gjöf­ina á er­lend­um vefsíðum. Ekki þarf um­tals­verðar fjár­hæðir til að stuðlarn­ir breyt­ist á þann hátt sem reynd­in varð.

KKÍ legg­ur mikla áherslu á að vinna gegn hagræðingu úr­slita í íþrótt­um með öll­um mögu­leg­um ráðum. Hluti af þeirri ógn sem staf­ar frá hagræðingu úr­slita í íþrótt­um á Íslandi kem­ur til vegna þess að óheft­ur aðgang­ur er fyr­ir hvern sem er að er­lend­um veðmálasíðum, án nokk­urs eft­ir­lits frá ís­lensk­um stjórn­völd­um. Er það mikið áhyggju­efni fyr­ir íþrótta­hreyf­ing­una á Íslandi.

KKÍ þakk­ar öll­um þeim aðilum sem aðstoðuðu sam­bandið á und­an­förn­um dög­um fyr­ir hraða og góða vinnu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir