Eitt stig er ágætis byrjun
Lið Tindastóls og Þróttar úr Vogum mættust í sól og sumaryl á Sauðárkróksvelli í dag. Leikurinn var talsvert fjöugur en heimamenn leiddu í hálfleik, 2-1, en þurftu að standast talsverða pressu gestanna í síðari hálfleik. Á endanum náðu Þróttarar að jafna og niðurstaðan jafntefli. Fyrsta stig Tindastóls því komið í hús en betur má ef duga skal. Lokatölur 2-2.
Ský dró frá sólu í upphafi leiks og það jaðraði við að hitinn næði 20 gráðunum á vellinum í dag. Jafnræði var með liðunum framan af leik en Stólarnir sóttu ágætlega upp vinstri kantinn að þessu sinni og það var einmitt eftir frábæra sendingu utan af kanti sem Sverrir Hrafn skallaði boltann glæsilega í fjærhornið á marki Þróttara og kom Tindastólsmönnum yfir í fyrsta sinn í sumar. Eftir því sem leið á hálfleikinn jókst pressa gestanna og á 38. mínútu jafnaði Andrew James Pew metin með frábæru skoti úr vítateigsboganum, efst í bláhornið hjá Faerber. Stólarnir stigu þá aftur á bensínið og náðu ágætum sóknum og rétt fyrir leikhlé varði einn leikmanna Þróttar með hendi innan teigs og Stólarnir fengu víti. Konni skoraði af miklu öryggi úr vítinu og staðan 2-1 í hálfleik.
Lið Þróttar hóf síðari hálfleik með pressu og Stólarnir vörðust með kjafti og klóm. Nokkrum sinnum björguðu varnarmenn heimamanna á síðustu stundu. Tindastólsmönnum gekk hinsvegar afleitlega að halda boltanum sem oftar en ekki var dúndrað eins langt fram völlinn og mögulegt var. Þetta var ekki fallegur bolti en lengi leit út fyrir að þessi taktík, sem sennilega var nú ekki uppleggið, mundi duga til að krækja í stigin þrjú. Það hafðist ekki því á 86. mínútu fór Ingvar Ásbjörn Ingvarsson illa með tvö varnarmenn Tindastóls og komst inn á vítateig þar sem Þróttarar náðu góðu spili og Ingvar renndi boltanum framhjá Faerber og í markið. Í framhaldinu var síðan Pape Mamadou Faye vikið af velli eftir smá slagsmál um boltann við markvörð Tindastóls. Bæði lið fengu færi til að gera sigurmarkið í leiknum á þeim mínútum sem eftir lifðu. Stólarnir unnu illa úr ákjósanlegri stöðu og engu mátti muna að Þróttarar gerðu sigurmarkið á allra síðustu sekúndunni. Faerber varði þá laust skot úr ágætu færi og liðin skiptu því stigunum á milli sín.
Leikmenn Tindastóls sýndu mikla baráttu í dag. Það var mikið kapp í mönnum en það vantaði kannski pínu klókindi og reynslu til að hirða stigin þrjú. Konni var góður á miðjunni og átti margar ágætar sendingar. Í síðari hálfleik vantaði tilfinnanlega fleiri leikmenn í liðið sem gátu haldið boltanum og spilað í fætur og þar hefði Benni komið sterkur inn, en kappinn er í banni. Fannar Kolbeins var góður í vörninni og í raun voru menn vel á tánum í varnarleiknum og gestirnir fengu ekki mörg alvöru færi í leiknum. Þróttarar voru aftur á móti duglegir að heimta vítaspyrnur og brot út um allan völl en dómari leiksins lét þá ekki stjórna sér og uppskáru Þróttarar aðallega gul spjöld og tiltöl vegna látanna.
Eitt stig komið í hús hjá liði Tindastóls. Það er að sjálfsögðu ekki glæsilegur árangur eftir sjö leiki. Það er hinsvegar nóg eftir af tímabilinu og engin ástæða til að örvænta strax. Þetta var skref áfram í dag þó svo að leikmenn hafi verið drullusvekktir að landa ekki fyrsta sigrinum. Nú þarf bara að halda áfram að fækka mistökunum og þá safnast stig í hús. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.