Brotlending í Síkinu
Tindastóll hafði tækifæri til að sópa Þórsurum frá Þorlákshöfn út úr úrslitakeppni Dominos deildarinnar í gær er þriðji leikur liðanna fór fram í átta liða úrslitunum. Þórsarar voru á öðru máli og vann sannfærandi sigur 67-87.
Það var ekkert sem benti til þess að Þórsarar ætluðu í sumarfrí í gær þar sem þeir virkuðu sprækir og hungraðir í sigur strax í upphafi leiks. Leiddu þeir mest allan fyrsta leikhlutann þó Stólarnir hafi átt fyrstu stigin með flottum þristi Danero strax í upphafi leiks. Síðan rataði boltinn ekki í körfu andstæðinganna fyrr en rúmum tveimur mínútum seinna. Það var svo um miðjan fjórðunginn sem Stólar fóru í aðgerð með að jafna leikinn er Brynjar Þór átti 3 stiga stökkskot og kom stöðunni í 16-18 og Dino Butorac stuttu síðar eftir að gestir höfðu bætt við tveimur stigum og staðan 19-20 þegar tvær og hálf mínúta var til loka leikhlutans sem endaði svo jafnt 22-22. Jafn leikur og allt útlit fyrir skemmtilegan slag.
Sama stemning var í öðrum leikhluta þar sem gestirnir áttu þó yfirleitt frumkvæðið en Stólar seigir að jafna jafnharðan. Þegar tvær og hálf mínúta var til leikhlés var staðan 37-37 og enn jafnt þegar 20 sekúndur eru eftir og Stólar taka leikhlé til að leggja upp lokasóknina. Hún var hins vegar upphafið að brotlendingu Stóla í leiknum. Sending misfórst og Þórsarar nýttu tækifærið og skoruðu á síðustu sekúndunni. Staðan í leikhlé 41-43.
Skor í leikhlutanum 19 - 21
Í leikhlé ákvað lukka heimamanna að sitja eftir inni í klefa. Hvorki gekk né rak í sóknarleiknum, hittnin slæm og boltar annað hvort framan á hring eða ofan á og jafnvel skrúfuðust upp úr körfunni. Vörnin hélt þó gestunum í 17 stigum sem sagði bara lítið sem ekkert þar sem stig heimamanna í leikhlutanum urðu aðeins 6 og Þórsarar komnir í þrettán stiga forystu 47:60. Þessum leikhluta gæti ég trúað að allir í húsinu, utan nokkurra flottra stuðningsmanna gestanna, vilja gleyma sem fyrst.
Skor í leikhlutanum 6 - 17
Þessum mun héldu leikmenn Þórs fram í miðjan fjórðung en þá varð allur vindur úr heimamönnum sem sáu sæng sína útbreidda og skriðu undir hana. Þórsararnir bættu í og sigruðu að lokum með tuttugu stiga mun 67-87.
Skor í leikhlutanum 20 – 27
Danero Thomas var stigahæstur heimamanna með 16 stig, Brynjar og Dino með 11 og Pétur Rúnar með 10. P.J. Alawoya náði sér ekki á strik og gerði einungis 8 stig.
Nikolas Tomsick var stigahæstur gestanna þrátt fyrir að vera á annarri löppinni og Kinu Rochford með 17. Davíð Arnar gerði 15 og Jaka Brodnik og Ragnar Örn með 13.
Það sem einkenndi þennan leik var að Þórsarar virkuðu hungraðri í sigur enda komnir með bakið fast upp að veggnum í rimmunni. Ekkert var annað í boði hjá þeim en sigur til að eiga möguleika á áframhaldandi þátttöku í úrslitakeppninni meðan Stólar geta hrist af sér slenið á morgun og klárað settið í Þorlákshöfn.
Israel Martin, þjálfari Stólanna skrifaði á Facebook eftir leikinn: „Var ekki okkar leikur í kvöld. Vantaði orku í vörnina, opnu skotin og engar auðveldar körfur.“ Hann þakkar stuðningsmönnum fyrir þeirra framlag og segir liðið þurfa á þeim að halda sem sjötta manninn. Þá er um að gera að drífa sig í Þorlákshöfn á morgun og styðja strákana til sigurs.
Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.