Brilli okkar aftur heim í Vesturbæinn
Það var mikil spenna og talsverð gleði hjá stuðningsmönnum Tindastóls fyrir um ári síðan þegar ljóst var að áttfaldur Íslandsmeistari og Stólabaninn Brynjar Þór Björnsson, hefði ákveðið að söðla um, segja skilið við lið KR og ganga til liðs við Tindastól. Nú ári síðar hefur Brilli ákveðið að ganga á ný til liðs við sína gömlu félaga en í liðinni viku var tilkynnt að hann væri búinn að semja við lið KR.
Í raun var það tilkynnt fljótlega eftir að lið Tindastóls féll úr leik í úrslitakeppninni að Brynjar hefði komist að samkomulagi við stjórn Körfuknattleiksdeildar Tindastóls um að fá tveggja ára samningi sínum rift. Ástæðan breyttar fjölskylduaðstæður en Brynjar og frú eignuðust nýjan Skagfirðing nú í sumarbyrjun og vildu hjónakornin vera nær sínum nánustu.
Ekki er annað að heyra á Brynjari en að honum hafi líkað vel í Skagafirðinum og í viðtali við Karfan.is segir hann að í raun hafi aðeins verið tvennt í stöðunni þegar hann þurfti að taka ákvörðun um hvar hann setti niður sína þrista næsta vetur; það yrði annað hvort með liði KR eða Tindastóls.
Lið KR verður sterkt næsta vetur því auk Brynjars hafa Íslandsmeistararnir bætt við sig bræðrunum Kobba og Matta Siguðarsonum sem eru uppaldir hjá KR. Jakob hefur verið í atvinnumennsku í Svíþjóð svo lengi sem elstu menn muna og Matti hefur leitt lið ÍR síðustu árin með myndarbrag. Það verður því ekki leiðinlegt að vinna KR næsta vetur með þessa gæðinga innanborðs.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.