Ágústa og Ingvar sigruðu Drangeyjarmótið

Frá ræsingu Drangeyjarmótsins í gærkvöldi. MYND: PÉTUR INGI
Frá ræsingu Drangeyjarmótsins í gærkvöldi. MYND: PÉTUR INGI

Í gær fór Drangeyjarmótið í götuhjólreiðum fram í Skagafirði en þetta var annað bikarmót ársins. Hjólreiðafélagið Drangey í Skagafirði og Hjólreiðasamband Íslands sáu um framkvæmd mótsins. Það voru Ingvar Ómars­son og Ágústa Edda Björns­dótt­ir sem urðu hlut­skörp­ust í aðalkeppninni sem er 124 kílómetra hringur í Skagafirði en líkt og í fyrra endaði leiðin á löngu klifri upp á skíðasvæði Tinda­stóls.

Keppendur voru ræstir af stað kl. 19 í gærkvöldi. Þrátt fyr­ir að bjart hafi verið í gær og hið besta gluggaveður þá endaði keppn­in í þykkri þoku í Stólnum. Eftir því sem leið á gærdaginn bætti töluvert í vind í Skagafirði og undir kvöld var kominn norðanstrekkingur. Þetta leiddi til þess að keppendur héldu sig meira í hópum og ekki mikið um að reynt væri að stinga af. 

Þannig voru til dæmis enn ellefu keppendur í hnapp í karlaflokki þegar komið var að brekkunni upp á skíðasvæðið en þá setti Ingvar í túrbógírinn og kláraði hálfri mínútu á undan næsta manni en hann fór hringinn á 3 klukkutímum, 26 mínútum og 33 sekúndum.  Annar varð Eyjólfur Guðgeirsson en sekúndu á eftir honum var Birkir Snær Ingvason sem sigraði mótið í fyrra. Keppnin hófst á Króknum en þaðan var hjólað fram í Varmahlíð, síðan yfir í Blönduhlíð og alla leið á Hofsós þar sem snúið var við, farið yfir í Hegranes og á Krókinn og lokaspretturinn var síðan upp á skíðasvæði. 124 kílómetrar sem fyrr segir.

Ágústa Edda sigraði sem fyrr segir í aðalkeppni kvenna en hún kláraði á 3:57:20, Hafdís Sigurðardóttir varð önnur á 3:58:37 og Bríet Kristý Gunnarsdóttir þriðja á 3:58: 56.

Á sama tíma var einnig keppt í styttri vegalengd, 82 kílómetrum, en þeir keppendur fóru sömu leið en þurftu ekki að fara á Hofsós, tóku snarpa vinstri beygju yfir í Nes áður en komið var að Narfastöðum. Upplýsingar um úrslit má sjá hér > 

Þá var keppt í almenningsflokki karla og kvenna í gærmorgun kl. 9 en sú keppni hófst í Varmahlíð. Síðan var hjólað yfir í Blönduhlíð og þaðan á Krókinn og síðan fram í Varmahlíð; alls 65 kílómetrar. Heldur var vindur rólegri á meðan á almenningskeppninni stóð. 

Myndirnar hér að neðan tóku Bríet Guðmundsdóttir og Pétur Ingi Björnsson. Bríet tók myndir frá keppninni en Pétur frá ræsingunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir