Æfingaleikur í Síkinu í kvöld
Körfuboltaaðdáendur þurfa ekki að bíða lengur eftir að komast á leik því Tindastóll fær Skallagrím í heimsókn í æfingaleik í kvöld. P. J. Alawoya er kominn aftur til liðsins en hann átti ágætt tímabil í fjarveri Urald King fyrir áramót. Helgi Freyr Margeirsson, aðstoðarþjálfari, segist vonast til þess að leikurinn verði forsmekkurinn á nýju upphafi, ef svo megi að orði komast, þar sem liðið er að sigla inní lokaátökin í Dominosdeildinni áður en Úrslitakeppnin hefst.
„Liðið er, eins og þeir vita sem hafa fylgst með því, búið að stíga nokkuð brattan öldudal eftir áramótin. Liðið hefur spilað mjög góðan körfubolta á köflum en þeir hafa verið fáir og of langt á milli þeirra. Árangurinn, gleðin og baráttan sem stuðningsmenn þekkja liðið af hefur vantað,“ segir Helgi Freyr. Hann bendir á að liðið sé breytt þar sem búið að senda tvo atvinnumenn heim og fá einn í staðinn og þannig ýta okkar strákum framar, gefa þeim meira vægi og fá þeim í hendur meiri ábyrgð.
„Þetta vil ég að skili meira flæði inni á vellinum og vörnin muni eflast til muna með meiri talanda og baráttu. PJ er leikmaður sem er ólíkur Urald King að mörgu leyti, hann er ekki sami íþróttamaðurinn og Urald en hann er með meiri leikskilning og á auðvelt með að spila liðsfélaga sína uppi. Þetta er mjög léttur og skemmtilegur strákur sem hefur nú þegar hjálpað til við að lyfta upp andanum í klefanum,“ segir Helgi og bætir við:
„Ég vil að lokum fá að þakka stuðningsmönnum, styrktaraðilum og stjórn Tindastóls fyrir ótrúlega góðan stuðning og mikla samheldni á mjög erfiðu tímabili sem síðustu sjö vikur hafa verið þar sem úrslit leikja, atvik innan og utan vallar hafa reynt á alla sem koma að þessu frábæra félagi. Þessum tíma vona ég að sé nú lokið og við horfum fram á bjartari tíma með sól í heiði. Það mega allir vita sem hafa tekið þátt í starfi félagsins á einhvern hátt að við sameinuð erum ótrúlega sterk og getum afrekað ótrúlegustu hluti saman. Verum áfram stolt af félaginu okkar og byrjum gleðina á sigri í kvöld! Áfram Tindastóll“Þá er bara að mæta á völlinn og hvetja liðið til góðra verka.
Leikurinn hefst kl 19:45 og aðgangseyrir 1.500 kr.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.