Ýmislegt úr Húnaþingi

Úr Húnaþingi er ýmislegt að frétta, mannlífið gott og kosningar afstaðnar. Helga Hinriksdóttir rölti um bæinn í gær og tók nokkrar myndir og sendi Feyki með skemmtilegum texta.

Miðvikudaginn 2. júní hélt Foreldrafélag Leikskólans Ásgarðs á Hvammstanga glæsilega sumarhátíð í leikskólanum við góða mætingu foreldra, nemenda og systkina. Var byrjað á því að flagga fána Ásgarðs, svo var farið í skrúðgöngu um hverfið. Þá tók við fjöldasöngur og leikir og að síðustu fengu allir grillaðar pylsur að borða og Svala að drekka.

Löng hefð er fyrir sumarhátíðinni í Ásgarði en því miður var veðrið ekki upp á sitt besta þetta skiptið. Leikskólinn Ásgarður er eini leikskólinn í Húnaþingi vestra. Það eru 56 nemendur við skólann og starfsmenn eru 19.

María Sigurðardóttir ætla að opna nýtt kaffihús á Hvammstanga í sumar.

Kaffihúsið er staðsett í gömlu fjósi og hlöðu við hliðina á Selasetri Íslands, og mun einmitt heita Hlaðan. Áætlaður opnunardagur er í kringum 17. júní og nú krossa allir bæjarbúar fingur og vona að það gangi eftir.

Mikill spenningur er yfir þessu kaffihúsi og heyrst hefur að margir ætli sér að "hanga á kaffihúsi" í sumar.

...og að öðru sem ekki hefur myndir:

Nytjamarkaðurinn á Hvammstanga opnar nú í 4. sinn laugardaginn 19. júní.

Það eru nokkrar konur sem standa að markaðinum sem upphaflega var settur af stað sem fjáröflun utanlandsferðar starfsmanna Heilbrigðisstofnunarinnar á Hvammstanga. Það árið var markaðurinn opinn tvisvar sinnum yfir sumarið við góðar móttökur heimamanna. Strax að hausti var ákveðið að hafa markaðinn aftur að ári - þó tilgangurinn hefði breyst. Síðan þá hefur hann verið opinn á laugardögum yfir mest allt sumarið. Alltaf er mikið um gesti í markaðinum, bæði heimafólk og ferðamenn. Ágóðinn af markaðinum rennur til góðgerðamála í Húnaþingi vestra. Einkunnarorð Nytjamarkaðarins eru "Eins manns rusl, er annars gull" og hefur það sýnt sig að markaðurinn er kominn til að vera. Mikið hefur borist af vörum nú í vetur þegar fólk hefur verið að taka til hjá sér og er það breyting frá því í fyrra. Markaðurinn er staðsettur í gömlum gærukjallara fyrir neðan KVH og verður opinn frá kl. 11 - 16 alla laugardaga í sumar út júlí.

Unglistahátíðin Eldur í Húnaþingi hefur verið haldin ár hvert síðan 2003 og er er hún alltaf haldin síðasta laugardag fyrir verslunarmannahelgi.

Undirbúningur er í fullum gangi en mikil vinna liggur að baki svona hátíðar sem öll er unnin í sjálfboðavinnu af ungu fólki í héraðinu.

Fastir liðir í hátíðinni eru t.d. opnunarhátíð, Melló Músíka - tónleikar með heimafólki, tónleikar í Borgarvirki, fjölskyldudagur og bæði barna- og fullorðinsball á laugardagskvöldi. Hljómsveitin Dikta og blúsbandið BeeBee and the Blue Birds verða með tónleika, Í Svörtum Fötum spila á balli, Daníel töframaður og félagi verða með námskeið í töfrabrögðum, borðtennismót í Kleppara, listasýningar og margt fleira verður í boði á Eldi í Húnaþingi daganna 21. - 25. júní. Hægt verður að fylgjast nánar með dagskránni þegar hún verður fullmótuð á http://eldur.hunathing.is

/Helga

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir