Vont er þeirra ránglæti, verra þeirra réttlæti
Sögulegur atburður átti sér stað á Alþingi þann 28. september síðastliðinn. Sögulegur og dapurlegur. Aldrei hefur virðingu Alþingis verið misboðið sem þá.
Í stað þess að láta rannsaka embættisfærslu allra ráðherra í stjórn Geirs H. Haarde, þ.m.t. Jóhönnu Sigurðardóttur, þá var ákveðið í pólitískri kosningu að ákæra Geir einan, en sýkna hina. Framkoma þingmanna Samfylkingarinnar er sérstaklega dapurleg og ljóst að leikflétta var sett á svið, með það að markmiði að hlífa ráðherrum Samfylkingar, en höfða mál gegn Geir fyrir glæpsamleg afbrot. Ekki nema von að orð Jóns Hreggviðssonar komi upp í hugann.
Vinstri grænir hafa alltaf verið uppteknir af því að benda á syndir annarra. Steingrímur sagðist gjarnan hafa viljað ákæra annan mann en Geir, og ekki þarf mikið hugmyndaflug til að skilja hver það er. Íhaldið skyldi flengt, sama hvað það kostaði og fyrst ekki náðist í Davíð, þá varð Geir að duga. Þetta er ekki spurning um réttlæti, heldur er um pólitíska heift að ræða.
Framsóknarmennirnir Siv Friðleifsdóttir og Birkir Jón Jónsson greiddu atkvæði með ákæru eins og saklausir englar, eins og þau hefðu ekkert komið að stjórnmálum fyrir hrun.
Hins vegar vil ég hæla þeim Gunnari Braga og Guðmundi Steingrímssyni fyrir þeirra skilning á málinu og gott að vita að þeir tveir framsóknarmenn sem sýndu drengskap í þessu máli, auk formanns þeirra, eru úr okkar kjördæmi.
Því miður fataðist réttlætisdívunni Ólínu Þorvarðardóttur illilega flugið og féll í þá vilpu sem örðugt er að standa upp úr með einhverri reisn. Hún greiddi atkvæði með því að ákæra Geir, en á móti því að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu. Þannig ákvað hún sjálf að dæma í stað þess að láta landsdóminn um það.
Undarlegt þykir mér einnig að uppvekja hinn fornaldarlega landsdóm, á sama tíma og undirbúið er stjórnlagaþing til þess að yngja upp stjórnarskrána og færa hana nær nútímanum. Ef ráðherra brýtur lög, á hann þá ekki að fara fyrir sömu dómstóla og við hin?
Ég er ekki í nokkrum vafa um að sá góði drengur Geir H. Haarde verður sýknaður. En hvað með bankaræningjana og þá sem fjármálaglæpina frömdu? Hvenær verða þeir dæmdir?
Gísli Gunnarsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.