Vísnabókin er ómissandi á hverju heimili

Myndin er tekin við miðaldavirkið Hammershus á Borgundarhólmi sem ég heimsótti sl. sumar. Borgundarhólmur tengist vissulega bóklestri því þangað hefur mig langað síðan ég las bernskuminningar danska rithöfundarins Martin Andersen Nexö.   MYND aðsend
Myndin er tekin við miðaldavirkið Hammershus á Borgundarhólmi sem ég heimsótti sl. sumar. Borgundarhólmur tengist vissulega bóklestri því þangað hefur mig langað síðan ég las bernskuminningar danska rithöfundarins Martin Andersen Nexö. MYND aðsend

Að þessu sinni er það Sara Regína Valdimarsdóttir, árgangur 1954, sem svarar Bók-haldinu. Eiginmaður er Þórarinn Magnússson bóndi á Frostastöðum en saman eiga þau sex uppkomin börn. Sara er fædd og uppalin í höfuðborginni en hefur búið í Blönduhlíðinni í fjörutíu og eitthvað ár eins og hún segir sjálf.

„Ég fluttist hingað í Skagafjörðinn nýútskrifaður kennari og hef alla tíð unnið við það, sem kennari, stjórnandi og sérkennari síðustu árin. Lét af störfum sumarið 2021 og hafði þá starfað við fjóra af grunnskólum sveitarfélagsins og kynnst heilum her af dásamlegum nemendum, foreldrum og samstarfsfólki. Eiginmaðurinn er sauðfjárbóndi og saman rekum við litla gistiþjónustu,“ segir Sara þegar hún er beðin um að segja deili á sér. „Í deiglunni núna eru æsispennandi Eurovision tónleikar kórsins míns, Sóldísa, á konudaginn í febrúar. Það má enginn missa af þeim!“ áréttar hún áður en við vindum okkur í Bók-haldið.

Hvað lastu sem barn? „Sem barn las ég bara allt sem ég gat komið höndum yfir. Fullorðinsbækur úr hillunum heima og barnabækur af bókasafninu. Ég var fastagestur á Borgarbókasafninu frá sjö ára aldri með pabba mínum. Það var alltaf tilhlökkunarefni að ganga inn í reisulega, hvíta húsið í Þingholtunum sem hýsti bókasafnið í þá daga, það var fallegasta húsið í Reykjavík, fannst mér, nærri því eins og höll.

Fyrsta bókin sem ég fékk að láni á bókasafninu með eigin korti var Kári litli og Lappi eftir Stefán Júlíusson, það var merkileg stund. Eins og hjá mörgum öðrum voru bækur Enid Blyton í uppáhaldi, sem og bækurnar um Önnu í Grænuhlíð. Ég las líka Dóru bækurnar eftir Ragnheiði Jónsdóttur, þar færðist frásagan úr sveit í borgarlífið, mjög góðar bækur. En mest áhrif á mig höfðu bækur Stefáns Jónssonar um Hjalta litla og var ófáum tárunum úthellt yfir þeim.“

Hvað ertu að lesa núna? „Ég er svo heppin að vera meðlimur í góðum lestrarklúbbi sem hefur starfað síðan 2007. Við ræðum og mælum með bókum og lánum hver annarri bækur. Við höfum fjölbreyttan bókasmekk svo ýmislegt ber á góma í umræðunum. Einmitt núna hef ég nýlokið við að lesa Vegabréf: íslenskt eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur, bók sem lætur engan ósnortinn. Er að lesa Þar sem vegurinn endar hér eftir Hrafn Jökulsson og á sófaborðinu bíða Ilmreyr – móðurminning eftir Ólínu Þorvarðar, Hamingja þessa heims eftir Sigríði Hagalín og Systraklukkurnareftir Lars Mytting.“

Hver er uppáhaldsbókin? „Það er erfitt að nefna einhverja eina bók sem uppáhaldsbók en upp í hugann kemur bókin Þrúgur reiðinnar eftir John Steinbeck. Hana las ég sem unglingur ásamt fleiri bókum Steinbecks, og hún hafði mikil áhrif á mig. Með vaxandi aldri og þroska breytist smekkurinn og þá bætast við bækur eins og Þúsund bjartar sólir eftir Khaled Hosseini og Morgnar í Jenin eftir Susan Abulhawa. Eins verð ég að nefna Bróðir minn Ljónshjarta eftir Astrid Lindgren, þann frábæra barnabókahöfund.“

Hvernig bækur lestu helst? „Ég var og er enn forfallinn að-dáandi góðra krimma. Ég las allar bækur Agötu Christie og horfi með ánægju á Miss Marple í sjónvarpinu þó ég hafi séð/lesið hana hundrað sinnum áður. Það er eitthvað svo þægilegt við svona „sófa krimma“. Síðar kynntist ég sænsku höf-undunum Sjövall og Wahlöö með sína samfélagsgagnrýni og frábæru persónusköpun. Ég las þeirra bækur og þaðan var leiðin stutt yfir í hinn sænska Henning Mankell. Af íslenskum krimmahöfundum er Arnaldur Indriðason minn maður og ég bíð þess staðföst að Erlendur rísi upp frá dauðum. Ameríska krimma les ég aldrei.

Mér finnst áhugavert að lesa bækur um samfélög sem eru ólík okkar og sérstaklega ef þær fjalla um veruleika kvenna og barna. Morgnar í Jeniner til dæmis bók sem rekur mann til að leita sér fróðleiks um Palestínu og Ísrael. Mér finnst líka gaman að lesa sögulegar skáldsögur og sögur þar sem fróðleik og heimildum er fléttað inn í frásögnina. Eldarnir hennar Sigríðar Hagalín eru frábært dæmi um slíkt og einnig bækur Steinunnar Jóhannesdóttur: Heimanfylgja um Hallgrím Pétursson og Reisubók Guðríðar. Kíló-bækur Hallgrims Helgasonar eru auð-vitað skáldsögur en styðjast við sögulegar staðreyndir, ég hef gaman að þessari leiftrandi frásagnargleði þó alþýða Íslendinga fái þar slæma útreið. Þá hef ég gaman af því að lesa æviþætti eða minningabækur ef svo mætti kalla, þar má nefna bækur Ásdisar Höllu Bragadóttur og bók Helgu Guðrúnar Johnson: Sagan þeirra, sagan mín. Bók Sigríðar Þorgríms um móður sína Jakobínu skáldkonu vil ég einnig nefna sem frábæra ævi- og samfélagssögu.“

Bókabúðir og bókasöfn. „Mér finnst notalegt að heimsækja bókabúðir og geri það gjarnan, bæði hér heima og erlendis, en því miður eru þær að týna tölunni sem er ekki gott. Það er alltaf gott að heimsækja Eymundsson á Akureyri, fá sér kaffi og fletta bókum. Ég kaupi þar þó aðallega bækur til að gefa börnum. Sjálf á ég allt of margar bækur og eignast því aðeins svona 2-3 bækur árlega og þá aðeins bækur sem mér finnst að geti verið gott að eiga og ég muni hugsanlega lesa oftar en einu sinni.

Ég er áskrifandi að Storytel og nota það mikið. Þá hef ég nú einnig uppgötvað Rafbóka-safnið í gegnum aðgangskort Héraðsbókasafnins. Þar er heill heimur af bókum, reyndar flestar á ensku, en ég mæli með að kíkja þar inn.“

Hvaða bók hefurðu lesið oftast? „Hvaða bók ég hef lesið oftast? Það hef ég ekki hugmynd um en hér í hillunum leynast tvær gatslitnar kiljur sem hafa greinilega verið mikið lesnar, ekki bara af mér heldur dætrunum líka. Þetta eru bækurnar Hús andanna eftir Isabel Allende og Purpuraliturinn eftir Alice Walker. Báðar uppáhaldsbækur.“

Hvað lastu fyrir börnin? „Ég held að gildi lesturs (eða hlustunar) sé óumdeilt. Það er mikilvægt að lesa fyrir börnin sín til að efla þeirra málþroska og skilning og glæða vonandi áhuga þeirra á lestri. Það er ekkert sem jafnast á við að lúra í rúminu og lesa börnin (og stundum sjálfan sig) í svefn, þetta eru samverustundir sem koma aldrei aftur. Astrid Lindgren var í algjöru uppáhaldi með Lottu bókunum sínum, ásamt Maddit og Betu. Bækurnar um Einar Áskel eru frábærar. Svo var það Guðrún Helgadóttir með Jón Odd og Jón Bjarna og Saman í hring seríuna. Ein dóttirin nefnir bækurnar um Sossu sólskinsbarn eftir Magneu frá Kleifum, þær voru líka góðar.“

Hefurðu heimsótt staði sem tengjast bókum? „Það hef ég örugglega gert því sagan umlykur okkur hvert sem við förum. Ég reyni oft að lesa mér eitthvað til um svæði og staði sem til stendur að heimsækja og grípa með í ferðina ferðabækur og handbækur ef til eru. Ég minnist þess að fyrir nokkrum árum var á ferðinni hér á Íslandi hópur danskra kvenna sem voru á slóðum Karitasar úr bókinni Karitas án titils eftir Kristínu Marju Baldursdóttir (enn ein uppáhaldsbókin). Á sama hátt hefur mig lengi langað til að fara á slóðir Jane Austen í Bretlandi, kannski verður sá draumur að veruleika?“

Ef þú ættir að gefa einhverjum sem þér þykir vænt um bók, hvaða bók yrði þá fyrir valinu? „Gamla, góða Vísnabókin með myndskreytingum Halldórs Péturssonar er ómissandi á hverju heimili.“

- - - - - -
Bók-hald Söru var fyrst birt í 6. tölublaði Feykis 2023

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir