VÍS og Sparisjóðurinn AFL taka upp samstarf - VÍS flytur störf til Skagafjarðar

sparisjodur-skagafjardar vis-logoVátryggingafélag Íslands (VÍS) og Sparisjóðurinn Afl hafa samið um að sparisjóðurinn verði umboðsaðili VÍS í Skagafirði og á Siglufirði.  Í kjölfarið munu starfsmenn á þjónustuskrifstofu VÍS á Sauðárkróki flytjast yfir til sparisjóðsins.

 

Í tengslum við þessa breytingu mun VÍS efla starfsemi sína í Skagafirði enn frekar með því að flytja verkefni sem nema tveimur stöðugildum til viðbótar til Sauðárkróks.  

Stefnt er að því að sameinuð skrifstofa VÍS og Sparisjóðsins Afls flytjist á næstu vikum í nýtt húsnæði á Sauðárkróki og hefur Kaupþing fallist á ósk sparisjóðsins um að yfirtaka leigusamning útibús Kaupþings í Skagfirðingabúð. Kristján Björn Snorrason sem verið hefur útibústjóri Afls í Skagafirði mun taka við nýju starfi markaðsstjóra Sparisjóðsins Afls. Sigurbjörn Bogason, þjónustustjóri VÍS á Sauðárkróki mun taka við sem útibústjóri Sparisjóðsins í Skagafirði.  Aðspurður segist Kristján hlakka mjög til þess að takast á við nýtt og spennandi starf í að efla og styrkja sparisjóðinn Afl sem nýtur mikilla vinsælda heima í héraði.

Sparisjóðurinn Afl samanstendur af Sparisjóði Siglufjarðar og Sparisjóði Skagafjarðar.  Um leið og samningurinn við VÍS tekur gildi lýkur samstarfi sparisjóðsins við Sjóvá sem verið hefur undanfarin ár.  Ólafur Jónsson sparisjóðsstjóri Afls fagnar samningnum við VÍS og telur að þau viðbótarverkefni sem VÍS færir norður á Sauðárkrók muni styrkja starf sparisjóðsins heima í héraði, jafnframt þakkar hann Sjóvá samstarf liðinna ára.

„Það er ánægjuefni fyrir okkur hjá VÍS að fá til liðs við okkur traustan samstarfsaðila sem getur tekið þátt í að efla enn frekar þjónstuna við viðskiptavini VÍS í gegnum sameiginlegar skrifstofur á þessu svæði,“segir Auður Björk Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri sölu-og þjónustusviðs VÍS.

 

 

Nánari upplýsingar:

Ólafur Jónsson, s:  892 0852

Auður Björk Guðmundsdóttir, s: 660 5159

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir