Virðingaleysi meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis setur blett á sjómannadagshátíðina

Oft hafa ríkisstjórnarflokkarnir gengið fram af Íslendingum en nú tekur steininn úr. Ríkisstjórnin lagði fram á lokafresti tvö sjávarútvegsmál sem vísað var til atvinnuveganefndar. Í umsögnum fengu bæði málin falleinkun sem og hjá sérfræðingum er skoðuðu þau. Megin niðurstaða þeirra er sú að frumvörpin eyðileggja íslenskan sjávarútveg. Nærri 35 þúsund Íslendingar hafa beina eða óbeina atvinnu af sjávarútvegi - sjávarklasanum, atvinna þessa fólks er í húfi.

Við alla þá er starfa í sjávarútvegi eða störfum honum tengdum vil ég segja: Örvæntið ekki, fjöldi þingmanna er reiðubúinn að standa vaktina á Alþingi eins lengi og þarf til að koma í veg fyrir að störf ykkar séu lögð í rúst. Ekki bara vegna þess að við skiljum mikilvægi starfa ykkar heldur líka vegna þess að allir aðrir Íslendingar þurfa líka á ykkar störfum að halda.

Ekki hlustað á gagnrýni sérfræðinga

Annað frumarpið fjallar um veiðigjald.  Þar tókst sömu mönnum og stóðu að fyrsta Icesave samningnum að koma fram með svo vitlausa reiknireglu að skipa þarf nefnd til að láta hana ganga upp, skv. tillögum sömu manna.  Þrátt fyrir að enginn nema þessir herramenn hafi trú á þessari aðferðafræði skal hún samt notuð. Sérfræðingur hefur sagt að breyting sem þeir Icesave kumpánar vilja gera frá fyrri útgáfu sé lítil en þó til bóta og sami maður segir að mikilvægt sé að hafa í huga að veiðigjaldafrumvarpið byggir á NÚGILDANDI lögum um stjórn fiskveiða og verði breyting á þeim lögum þurfi að meta allt uppá nýtt. Þetta þýðir að ef greiða eigi svo há veiðigjöld sé forsendan sú að ekki verði hróflað við núgildandi fiskveiðistjórnunarkerfi.

Þá komum við að hinu sjávarútvegsmálinu, breytingum á lögum um stjórn fiskveiða. Það frumvarp fékk ekki minni gagnrýni en veiðigjaldið enda augljóst að í því var búið að safna saman öllum vondum hugmyndum stjórnarþingmanna í einn hrærigraut. Þrátt fyrir alla þá gagnrýni sem komið hefur fram er ætlun þeirra að taka málið úr nefndinni nánast óbreytt. Það þýðir að veiðigjaldafrumvarpið, sem byggir á NÚGILDANDI lögum, fellur um sjálft sig eins og fram kom hér að framan.

Meirihluti nefndarinnar hefur komið málum þannig fyrir að útilokað er að koma fram með breytingatillögur á málunum eða reyna að breyta þeim með rökræðu nema meirihlutinn dragi málin til baka og við byrjum með hreint borð.

Skammarleg vinnubrögð gagnvart fólki í sjávarútvegi

Framkoma meirihluta atvinnuveganefndar gagnvart þeim sem vinna í sjávarúvegi og þeim sem gæta hagsmuna íbúa í þorpum og bæjum landsins er til háborinnar skammar. Vikum saman hefur meirihlutinn dregið fólk í sjávarútvegi, sveitarstjórnarmenn, þingmenn og aðra á asnaeyrum og stundað mikinn blekkingarleik. Þegar hulan er loks dregin frá kemur í ljós að ekkert hefur verið hlustað á þær athugasemdir og gagnrýni sem fram hefur komið og því síður er að hlustað á þær þúsundir sem vinna við greinina. Það lýsir hroka meirihlutans best að koma þannig fram fáum dögum fyrir sjómannadag, hátíðisdag þeirra sem starfa við sjávarútveg.

Svo virðist sem þeir sem talað hafa niður störf fólks í sjávarútvegi með sömu frösunum árum saman séu farnir að trúa þeim sjálfir. Þetta eru kratarnir og sófakommarnir sem töldu þjóðinni trú um að í sjávarútvegi væri bara vont fólk sem færi illa með fé. Á sama tíma fóru þessir aðilar í broddi fylkingar fyrir Baugsgenginu og bankaguttunum sem síðar settu Ísland nánast í þrot. Þetta fólk sakar aðra um sérhagsmunagæslu þegar það sjálft hugsar ekki um annað en að tryggja líf ríkisstjórnarinnar svo þau tapi ekki völdum. Það eru sérhagsmunir sem koma niður á öllum Íslendingum.

Gunnar Bragi Sveinsson
Formaður þingflokks framsóknarmanna

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir