Villibráð og súkkulaðidöðluterta með bananarjóma

Mikael Þór Björnsson og Sólrún Guðfinna Rafnsdóttir á Hvammstanga eru matgæðingar vikunnar og bjóða upp á dýrindis villibráð enda segir Sólrún húsbóndann mjög duglegan að veiða til matar og er villibráðin af ýmsum stærðum og gerðum. 

Forréttur

Grafnar gæsabringur

  • 6 msk gróft salt
  • 3 msk sykur
  • 3 msk söxuð fersk steinselja (eða þurrkuð)
  • 1 msk piparbland
  • 2 msk timian
  • 1 saxað hvítlauksrif
  • 6 – 8 einiber, brytjuð

Öllu blandað saman og bringurnar settar í form og þaktar með saltblöndunni.  Bringurnar eru látnar liggja í blöndunni í 1 ½ sólarhring.  Gott er að snúa bringunum nokkrum sinnum til að þær „grafist jafnt“.  Þegar bringurnar eru tilbúnar er gott að skafa af þeim mesta saltið og frysta þær.  Svo eru þær skornar mjög þunnt niður og eru svakalega góðar með rauðlaukssultu, klettasalati og snittubrauði – „Pörfekt“ forréttur :O)

 

Rauðlaukssulta

  • 500 g rauðlaukur
  • 2 msk olía
  • ½ dl sykur
  • 2 dl rifsberjahlaup
  • 2 dl vatn
  • 2 msk rauðvínsedik
  • ½ dl púrtvín
  • Salt og pipar

Olía er sett í pott ásamt rauðlauk, látið mýkjast vel upp.  Öllu hinu er blandað saman við og látið malla í 1 klukkustund.  Sultan er bæði góð heit og köld.

 

Aðalréttur

Hreindýragúllassúpa

  • 600 g hreindýragúllas (má nota annað kjöt)
  • 2 saxaðir laukar
  • 3 hvítlauksrif, pressuð
  • 3 msk olía til steikingar
  • 1 ½ msk paprikuduft
  • 1 ½ líter vatn
  • 3 – 4 msk kjötkraftur (eða 3 - 4 teningar)
  • 1 tsk Cumin duft
  • 1 – 2 tsk majoram
  • 700 g kartöflur, flysjaðar og skornar í bita
  • 2 – 3 gulrætur, flysjaðar og skornar í bita
  • 2 paprikur skornar í bita
  • 1 dós niðursoðnir maukaðir tómatar

 

#  Kjöt, laukar og hvítlaukur steikt í olíunni í potti.

#  Paprikudufti stráð yfir kjötið og vatni bætt út í ásamt kjötkrafti, cumini og majormai.  Látið sjóða við vægan hita í 40 mín.

#  Grænmeti bætt út í pottinn og látið sjóða við vægan hita í 30 mín.

#  Krydda meira ef þarf...

 

Eftirréttur

Súkkulaðidöðluterta með bananarjóma

  • 4 egg
  • 150 g sykur
  • 50 g hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 100 g suðusúkkulaði
  • 100 g döðlur

Egg og sykur hrært vel saman og hveiti og lyftiduft sett varlega saman við.  Síðast er suðusúkkulaðið og döðlurnar settar saman við.  Bakað í tveimur hringlaga formum í 15 – 20 mín við 180°C

Krem:

  • 3 eggjarauður
  • 4 msk flórsykur
  • 100 g suðusúkkulaði (brætt)
  • ½ lítri rjómi, þeyttur
  • 2 bananar

#  Eggjarauður og flórsykur hrært vel saman, síðan er suðusúkkulaðinu bætt út í ásamt ca. 3 - 4 kúfaðar msk. þeyttur rjómi.

#  Bananar stappaðir í frumeindir og hrærðir saman við þeytta rjómann.

#  Ofan á neðri botninn kemur helmingur af kreminu, þar ofan á kemur bananarjóminn og svo botninn...Þar ofan á kemur svo rest af kremi :O)

Verði ykkur að góðu!

(Áður birst í 13. tbl. Feykis 2010)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir