Vill sjá nýsköpun, grósku og eldmóð á nýju ári
Katrín M Guðjónsdóttir tók við af Unni Valborgu Hilmarsdóttur sem framkvæmdastjóri SSNV í sumar. Katrín er viðskipta- og markaðsfræðingur en hún flutti norður í land í sumar en eiginmaður hennar, Pétur Arason, var ráðinn sveitarstjóri Húnabyggðar. Katrín gerir upp árið í Feyki.
Hver er maður ársins? Guðmundur Haukur Jakobsson forseti bæjarstjórnar Húnabyggðar. Hann hélt samfélaginu saman í mjög erfiðum aðstæðum á Blönduósi. Hann var til staðar og þurfti að fara í fjölmörg ný hlutverk við kerfjandi aðstæður sem hann var nátengdur við.
Hver var uppgötvun ársins? Ég er nýflutt á Norðuland vestra og hef satt að segja ekki búið á landsbyggðinni áður. En fyrir mér hefur opnast nýr og stór ævintýraheimur sem ég hlakka til að kynnast miklu betur og nýta til alls kyns útivistar í góðum félagskap. Fólk á landsbyggðinni býr yfir krafti sem er hvetjandi og nærandi.
Hvað var lag ársins? Það er erfitt að velja eitt lag. Ég er alæta á tónlist og hlusta mikið. Ég ætla að nefna Upp á rönd sem kom út á smáskífu í ár. Flytjendur Hjálmar & GDRN. Stemming og drami er alltaf góð blanda, flott samstarf hjá þeim.
Hvað var broslegast á árinu? Snjórinn sem tók við mér fyrir sunnan í lok desember. Það var búið að segja við mig þegar ég flutti norður að ég hefði aldrei séð alvöru snjó. Fyrir sunnan þurfti ég að moka mig bæði inn og út úr húsi. Ég er spennt að upplifa norðlenskan vetur og er komin með árskort í Tindastól.
Hvers er eftirminnilegast frá árinu 2022 – eða best? Tek við starfi framkvæmdastjóra SSNV sem boðaði ný ævintýri, upplifanir og nýtt heimili. Annað skemmtilegt voru árlegar stóðréttir, fjallaferðir og skíðaferð til Ítalíu.
Varp ársins (sjónvarp/útvarp/hlaðvarp)? Hlaðvarp Snorra Björns. Ég hlusta mikið á það hlaðvarp, þar fær Snorri til sín áhugavert fólk sem hefur sögur að segja.
Hverju viltu skella á brennuna og hvers vegna? Verðbólgunni! Held ég þurfi ekki að útskýra það frekar.
Hvað viltu sjá gerast árið 2023? Nýsköpun, grósku og eldmóð!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.