Vill fá sinn "Poll"!
Einar Jasonarson á Sauðárkróki hefur komið fram með þá kröfu að Króksarar eignist sinn „poll“ rétt eins og Akureyringar og Ísfirðingar. Finnst honum ótækt að engu líkara sé en að þessi tvö bæjarfélög eigi einkarétt á því að kalla sjóinn sinn poll.
-Eftir að Suðurgarðurinn kom við Sauðárkrókshöfn, finnst mér alveg tilvalið að kalla svæðið norðan garðsins „pollinn“, í líkingu við það sem Akureyringar og Ísfirðingar gera. Okkar pollur er lygn, jafnvel í norðanáttinni og mér finnst hann alveg hafa unnið til þess að fá þessa nafnbót.
Talsverð starfsemi er á pollinum við Sauðárkrókshöfn, m.a. hefur Siglingaklúbburinn Drangey þar starfsaðstöðu sína. Hvort þeir hafi áhuga á því að halda sitt starf á „pollinum“ eða bara í höfninni skal ósagt látið. Hitt er morgunljóst að Einar ætlar ekki að láta deigan síga og hefur stofnað hóp á Facebook máli sínu til stuðnings. Hægt er að slá inn leitarorðin „Pollur á Króknum“ til að fara inn á síðuna og skrá sig þar sem stuðningsaðila.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.