Vigdís Edda með fyrsta markið sitt í Pepsi Max
Eins og kunnugt er þá hafði knattspyrnukempan Vigdís Edda Friðriksdóttir vistaskipti í vetur, yfirgaf uppeldisfélagið Tindastól og skipti yfir í eitt sterkasta knattspyrnulið landsins, Breiðablik. Í gær komst hún á blað hjá Blikum þegar hún skoraði sjötta mark liðsins í 0-7 sigri á liði FH og var þetta fyrsta mark hennar í efstu deild.
Vigdís Edda hefur komið við sögu í flestum leikjum Blika í sumar, þá komið inn á í síðari hálfleik, en lið Breiðabliks er gríðarlega vel skipað og sjaldan eða aldrei verið sterkara en nú í sumar. Liðið hefur unnið alla leiki sína það sem af er, þar með talið Íslandsmeistara Vals 4-0, og hefur enn ekki fengið á sig mark í bikar eða deild í níu leikjum – sem er auðvitað bara bull.
Vigdís kom inn á á 82. mínútu og skoraði þremur mínútum síðar. Feykir óskar henni til hamingju með markið og vonar að þau verði miklu fleiri.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.