Víðimelsbræður segja upp 5 manns
Víðimelsbræður á Sauðárkróki sögðu nú um mánaðarmótinn upp 5 af sjö starfsmönnum fyrirtækisins. Ástæða uppsagnarinnar er óviss verkefnastaða framundan.
Að sögn Jóns Árnasonar hafa tilboð í þau verk sem boðin eru út verið í algjöru rugli. -Verkin eru að fara á þetta 40 - 50% af kostnaðaráætlun og það hlýtur hver heilvita maður að sjá að slíkt getur ekki gengið upp til lengdar, segir Jón.
Víðimelsbræður voru með samning við Vegagerðina um snjómokstur yfir vetrartímann en sá samningur rann út núna 1. maí. Verkið hefur verið boðið út að nýju og eru Víðimelsbræður meðal þeirra sem nú bjóða í verkið. -Þessar uppsagnir núna eru neyðarráðstöfun og við munum ráða mannskapin aftur skapist fyrir þá verkefni. Þeir eru allir með þriggja mánaða uppsagnafrest nema einn sem er með mánuð. Við höfum næg verkefni út júní en eftir það er allt í óvissu, segir Jón.
Víðimelsbræður eru þessa dagana að ljúka vinnu við nýjan hafnargarð á Sauðárkróki en fyrirtækið náði fyrr í vetur að semja við Siglingamálastofnun og sveitarfélagið Skagafjörð um að fá að hægja á því verki. -Við áttum upphaflega að ljúka því verki 1. mars en fengum að hægja á okkur til þess að hafa vinnu fyrir mannskapinn. Hefði það leyfi ekki fengist hefði ég einfaldlega þurft að segja mönnum upp fyrr.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.