Víðidalstungukirkja 120 ára
Haldið verður upp á 120 ára afmæli Víðidalstungukirkja með hátíðamessu 8. nóvember kl 14:00. Kirkjukaffi verður í Víðihlíð eftir messu. Á meðan setið verður yfir borðum verður boðið upp á dagskrá sem ýmsir taka þátt í.
Sögulegur fróðleikur um Víðidalstungkirkju
Lengi framan af öldum voru kirkjur á Íslandi jafnan í umsjá og á ábyrgð prests eða kirkjubónda, sem fékk þó eitthvað greitt í fríðu frá sóknarfólki. Þetta tók að breytast þegar sóknarnefndir voru stofnaðar uppúr árinu 1880. Sóknarnefnd Víðidalstungukirkju tók við kirkju og garði 1885 og hófst þegar handa við að koma upp nýrri timburkirkju, sem þá voru mjög að ryðja sér til rúms. Fenginn var reyndur kirkjusmiður úr Borgarfirði, Halldór Bjarnason, sem meðal annars byggði Reykholtskirkju hina gömlu, og síðar Staðarbakkakirkju. Samtals reisti hann sjö kirkjur og lagfærði aðrar níu, auk þess að smíða 80 bæi, 14 vatnsmyllur og 302 líkkistur á langri ævi. Kirkjurnar hannaði hann sjálfur og hefur verið bent á að Dómkirkjan í Reykjavík kemur sterkt inn sem fyrirmynd Halldórs, og er ekki leiðum að líkjast. Bygging kirkjunnar tafðist nokkuð sökum þess að hafís stöðvaði efnisöflun um tíma. Veturinn 1888-89 var gamla kirkjan rifin, og þá dró Kristján Jónsson að grjót í grunn en Þorsteinn Hjálmarsson í Hvarfi smíðaði alla bolta, vinkla, vindhana og skar gler í glugga. Sjálf kirkjusmíði hófst í júní og varð hún tilbúin á fimm mánuðum, máluð og fullbúin. Hjörleifur Einarsson prófastur vígði kirkjuna 17. nóvember 1889.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.