Viðbygging Árskóla

Stundum væri svo gaman að geta stutt góð verkefni. Viðbygging Árskóla er eitt þeirra. Tillögur byggingarnefndar Árskóla sem Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkti að hefja framkvæmdir á eru því miður hvorki til þess fallnar að bæta velferð barna í skólanum eða lækka kostnað sveitarfélagsins af skólastarfi.

Viðbygging Árskóla mun auka kostnað við skólarekstur í Sveitarfélaginu um 5 milljónir á ári næstu 22 árin samkvæmt áætlun byggingarnefndarinnar og setja skuldastöðu sveitarfélagsins nálægt hámarki þannig að erfitt verður um vik með stærri framkvæmdir næstu 15 árin.

Því miður hefur Sauðárkrókskaupstaður og í seinni tíð Sveitarfélagið Skagafjörður staðið afskaplega illa að viðhaldi bygginga í sinni eigu. Húsnæði Árskóla á Freyjugötu er sennilega eitt besta dæmið um þetta. Húsið er að verða mjög illa farið og þyrfti svo sannarlega á endurbótum að halda, hvaða starfsemi sem verður í þessu húsi í framtíðinni. Ég er á þeirri skoðun að það sé þörf á verulegum framkvæmdum til að bæta aðstöðu skólabarna á Sauðárkróki og hefur í raun verið mjög lengi.

Meirihluti sveitarstjórnar með dyggum stuðningi sjálfstæðismanna hefur nú fengið samþykktar þær tillögur sem byggingarnefnd Árskóla hefur unnið til að mæta þörf skólans fyrir bættum aðstæðum. Í sjálfu sér er ekki margt sem kemur á óvart í þessum tillögum. Horfið er frá því að byggja heildarlausn fyrir skólann í einum áfanga, þannig að verðmiðinn á framkvæmdinni lækkar aðeins, en á móti kemur að tillagan er ekki til þess fallin að ná niður kostnaði sveitarfélagsins af skólastarfinu. Menn hafa reyndar reiknað að hagræðing í skólakerfinu verði um 32 milljónir á ári, en á móti koma afborganir af láni vegna framkvæmdanna sem miðað við 4,35% verðtryggða vexti til 22 ára verða um 37 milljónir (fyrir utan verðbætur). Þetta þýðir að í raun þarf að greiða með framkvæmdinni um fimm milljónir á ári næstu tvo áratugina og tveim árum betur. Miðað við þá hagræðingu sem áætlað er að verði af þessari sameiningu, 4,35% vexti og 22 ár, mætti hámarks fjárfesting í skólanum vera tæpar 450 milljónir.

Framkvæmdaáætlun fyrir viðbyggingu Árskóla hljóðar uppá 518 milljónir fyrir fyrsta áfanga. Þetta setur sveitarfélagið ekki upp fyrir skuldaþakið sem sveitarfélögum er sett í nýjum sveitarfélagslögum ef væntingar um túlkun þeirra standast, en við verðum komin uppundir sperrur og verðum í vandræðum með allar stærri framkvæmdir í nánustu framtíð. Það er til dæmis ljóst að áfangi tvö verður ekki á framkvæmdaáætlun miðað við óbreyttar tekjur sveitarfélagsins fyrr en eftir 15 ár eða svo.

Fimmhundruð og átján milljónir en þá á reyndar eftir að kaupa lausamuni, það er húsgögn, kennslutæki, og áhöld í eldhús. Kostnaður við þetta gæti auðveldlega farið í 15-20 milljónir aukalega. Að auki gerir meirihlutinn ekki ráð fyrir að laga til skólalóðina við Árskóla, nema bara að laga til það sem aflaga kann að fara við framkvæmdirnar. Ekki er gert ráð fyrir að koma fyrir leiktækjum, girða lóðina eða gera nokkuð annað til að koma til móts við þarfir yngstu nemenda skólans þegar þeir flytjast uppeftir.  Í mínum huga er þessi flutningur á yngsta stigi skólans uppá Skagfirðingabraut ekki fullkláraður nema að lóðin verði aðlöguð þeirra þörfum. Tillaga að viðbyggingu við Árskóla tekur því ekki að fullu tillit til velferðar barnanna sem þessi aðgerð ætti að koma til móts við. Það er því dálítið skrítið að sjá að gert er ráð fyrir að verja tæpum 38 milljónum í lóð fyrir bíla starfsmanna.

Ef ætti að fara í framkvæmdir vegna lóðar og leikvallar má búast við kostnaðarauka uppá nokkra tugi milljóna. Það er nefnilega fljótt að telja þegar þarf að kaupa leiktæki, skipta um yfirborðsefni, girða og fleira. Varlega áætlað má því leggja að því rök að kostnaðurinn við að flytja yngra stig Árskóla í húsnæðið við Skagfirðingabraut verði í kringum 550 milljónir, ekki 518 eins og sú tillaga sem hér liggur fyrir gerir ráð fyrir.

Í áfanga tvö í viðbyggingu Árskóla stendur til að Tónlistarskólinn og Árvist fái inni í sama húsnæði, en sú aðgerð á að skila enn meiri hagræðingu samkvæmt áætlunum. Þangað til að af því verður þarf sér húsnæði fyrir rekstur þessara eininga og það er ljóst að það þarf að kosta töluverðu til við að koma því húsnæði í lag, hvort sem starfsemin fer áfram fram þar sem hún er í dag eða fundið annað húsnæði. Þrengslin í Árvist ættu að vera öllum þekkt og ljóst að það þarf að leysa það mál sem allra fyrst. Hvernig sem það mál verður leyst, þá mun það bera með sér kostnaðarauka fyrir sveitarfélagið okkar sem ekki er gert ráð fyrir í þriggja ára áætlun sveitarfélagsins. Ef gert er ráð fyrir að hagræðing af því að koma Árvist og Tónlistarskólanum fyrir í sama húsnæði og Árskóla sé svipuð og af því að koma Árskóla undir eitt þak, mætti framkvæma fyrir tæplega 900 milljónir miðað við gefnar forsendur. Ég hefði viljað sjá úttekt á þeirri leið í þessum tillögum, því ef það væri hægt að koma Árskóla, Árvist og Tónlistarskólanum undir eitt þak fyrir minni upphæð en 900 milljónir miðað við gefnar forsendur, þá yrði sú aðgerð til þess að sveitarfélagið gæti greitt niður skuldir til langs tíma, frekar en að auka þær einsog tillaga meirihlutans og sjálfstæðismanna gerir ráð fyrir.

Umtalsverður halli varð á rekstri sveitarfélagsins á árinu 2011. Endanlegar tölur eru ekki komnar, en allt bendir til þess að hallinn nemi að minnsta kosti fjórðung af áætluðum kostnaði við viðbyggingu Árskóla. Það er því ljóst að verulega þarf að taka á í rekstri sveitarfélagsins til þess að það hafi efni á kostnaðarauka í skólakerfinu. Meirihluti sveitarfélagsins hefur á þeim 19 mánuðum sem eru liðnir frá því að þeir tóku við rekstrinum ekki gert neinar róttækar breytingar til að snúa rekstrinum í rétta átt.

Tillaga meirihluta Sveitarstjórnar með stuðningi sjálfstæðismanna um viðbyggingu Árskóla virðist hvorki vera með velferð barna í fyrirrúmi eða innibera hagræðingu fyrir sveitarfélagið. Kostnaður við rekstur skólans mun aukast við þessa framkvæmd og ekki stendur til að aðlaga skólalóðina að þörfum yngstu nemendanna. Rekstur sveitarfélagsins á árinu 2011 var mjög slæmur og lítið sem ekkert hefur verið gert til að laga hann á árinu 2012. Samþykkt sveitarstjórnar um framkvæmdir við Árskóla mun auka kostnað sveitarfélagsins, en ekki draga úr honum. Tillögur um viðbyggingu Árskóla eru því mjög óábyrgar og ætti að endurskoða áður en framkvæmdir hefjast.

Þorsteinn Tómas Broddason

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir