Viðburðaríkt ár hjá Textílmiðstöð Íslands
Þetta ár hefur verið viðburðaríkt hjá Textílmiðstöð Íslands og nú þegar jól og áramót nálgast er gott að líta til baka. Ullin var í sviðsljósinu síðastliðið vor þegar haldið var „Ullarþon“ í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Yfir 100 aðilar tók þátt í hugmyndasamkeppni um íslenska ull og viljum við þakka öllum sem að keppninni komu kærlega fyrir þátttökuna og samstarfið. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson afhenti vinningsteymum verðlaun við hátíðlega athöfn á HönnunarMars í Reykjavík þann 20 maí. Upplýsingar um vinningshafa og þeirra hugmyndir má finna á heimasíðu Textílmiðstöðvarinnar: https://www.textilmidstod.is
Daginn eftir, þann 21. maí var TextílLab á Blönduósi formlega opnað. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ávörpuðu gesti og klipptu í sameiningu á þráðinn.
TextílLabið er á vegum Textílmiðstöðvar Íslands og er eina stafræna smiðjan á Íslandi sem leggur fyrst og fremst áherslu á textíl. Í TextílLabinu má finna vinylskera og leiserskera stafræna vefstóla, nálaþæfingarvél, stafræna útsaumsvél og von er á stafrænni prjónavél sem byggir á nýjum hugbúnaði og þrívíddar prentara. Innleiðing stafrænnar tækni í textíl er gríðarlega mikilvægt skref ekki síst út frá umhverfissjónarmiðum og menntun nýrra kynslóða. Fjármögnun uppbyggingarinnar og starfsmanns er í gegnum styrki og þátttöku í stóru Evrópuverkefni, Centrinno, Uppbyggingarstyrk úr Innviðasjóði, Lóu-nýsköpunarstyrk á landsbyggðinni og Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra. Mikilvægur þáttur í nýtingu aðstöðunnar er uppbygging náms á háskólastigi þar sem verklega kennslan yrði jafnframt aðgengileg fleirum.
Verkefnið á Blönduósi var kynnt á aðalfundi CENTRINNO sem haldinn var í Amsterdam í haust. Margrét Katrín Guttormsdóttir vöru- og textílhönnuður var ráðin í nýtt starf umsjónarmanns TextílLabs og hóf hún störf þann 1. október. Nú þegar hafa verið haldin fjöldi námskeiða og opin hús. Þingfulltrúar SSNV komu í heimsókn, kennarar og nemendur frá Grunnskólanum á Blönduósi, nemendur á vegum ,,School for International Training”, Ferðamáladeild Háskólans á Hólum, kennarar á listnámsbraut í VMA o.fl. Hópur nemenda frá Listaháskólanum og annar hópur nemenda frá Myndlistarskólanum í Reykjavík hafa hvor um sig dvalið í fimm daga vettvangsnámi. Nemendur Myndlistaskólans dvöldu nú síðast í desember þar sem þeir fengu bæði kennslu í hefðbundnum og stafrænum vefnaði og tækifæri til að kynnast tækjakosti og nýjum möguleikum á vinnslu textíls. TextílLab er öllum opið, handverksfólki, fræðimönnum, listafólki, nemendum og öllum sem hafa áhuga á að þróa verkefni eða vöru, gera tilraunir með efni o.s.frv. Hægt er að kíkja við á opnum dögum, sem eru á miðvikudögum kl. 13:00 - 20:00, eða senda fyrirspurn á margret.katrin@textilmidstod.is til að skipuleggja heimsókn, t.d. fyrir hópa.
Til að tryggja áframhaldandi uppbyggingu þarf að fjölga starfsfólki og efla enn frekar rannsóknir og aðstöðuna. Styrkumsóknir eru því áfram mikilvægur þáttur. Árið 2021 fékkst styrkur frá Lóu nýsköpunarstyrk atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins til að þróa TextílLabið enn frekar og leggja grunn að klasasamstarfi. Textílmiðstöðin tók einnig þátt í spennandi rannsóknarverkefnum styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna, ,,Endurofið“ og ,,Þráðhyggja“, sem unnið var m.a. í TextílLab (sjá vidéo á Youtube hér), og sumarsýningu Shoplifter ,,Boðflenna” á Hrútey. Jafnframt tekur Textílmiðstöðin þátt í samstarfsverkefnum í tengslum við menningartengda ferðaþjónustu þar sem lögð er áhersla á okkar textílmenningu og ullina.
Textíllistamiðstöð fékk nýtt nafn og heitir nú Ós Textíllistamiðstöð. Aðsókn fór að glæðast seinnipart sumars og yfir 50 listamenn frá Mexíkó, Síle, Frakklandi, Kanada, Bandaríkjunum, Ítalíu, Sviss, Þýskalandi, Bretlandi og Hollandi unnu að sínum verkefnum, héldu sýningar og opið hús. Fimmti listamaðurinn sem Ós gat styrkt til tveggja mánaðar dvalar vegna styrks frá Nordic Culture Point kom í september. Fyrir valinu var litháíska listakonan Austé Jurgelionyté-Varné. Auk þess að vinna að sinni listsköpun hélt hún opið námskeið þar sem hún kenndi þátttakendum að þrykkja á efni með plöntum.
Prjónagleðin var haldin aðra helgina í júní og tókst með miklum ágætum. Undirbúningur er hafinn fyrir Prjónagleðina 2022 sem verður haldinn dagana 10.-12. júní.
Að lokum viljum við óska heimamönnum og öllum samstarfsaðilum nær og fjær gleðilegra jóla og farsæls komandi árs!
Starfsfólk Textílmiðstöðvarinnar
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.