Viðbragðsáætlun við svínaflensu
Fyrir skömmu var skrifað undir skýrslu Almannavarna um viðbragðsáætlun við heimsfaraldri inflúensu í Skagafirði og er þá verið að hugsa til þess ef svínaflensan verði að faraldri.
Það voru fulltrúar frá Almannavörnum, sóttvarnalækni, Lögreglustjóraembættinu og sveitarfélaginu Skagafirði sem skrifuðu undir áætlunina en fulltrúi Akrahrepps átti ekki heimangengt.
Viðbragðsáætlunin er staðfærð og sniðin að þörfum fólks í Skagafirði og hvernig einstaka viðbragðsaðili muni bregðast við ef upp kemur skæður faraldur. Í máli Arnar Ragnarssonar sóttvarnarlæknis kom fram að enginn hefði greinst enn þá með svínaflensu á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki en alls væri búið að taka um 30 sýni. Taldi hann að toppnum væri náð með útbreiðslu inflúensunar að sinni og væri jafnvel í rénun. Sýkinguna taldi Örn vera væga en almennt búast heilbrigðisyfirvöld við því að sýkingin blossi upp aftur í haust eða vetur og þá er óttast að hún verði skæðari. Von er á bóluefni, sem ætti að duga fyrir helming þjóðarinnar, seinni partinn í október og hafa forgangshópar verið valdir. Þeir eru heilbrigðisstarfsmenn, starfsfólk á sambýlum, ófrískar konur, fólk með undirliggjandi sjúkdóma, fólk í öryggisgæslu s.s. í lögreglu, slökkviliði og björgunarsveitum. Nánari upplýsingar um inflúensuna og henni tengt er hægt nálgast á influensa.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.