Víða hægt að fá sér skötu
Á morgun rennur upp hinn mikli skötuátsdagur sem einhverra hluta vegna hefur fengið sinn stað á Þorláksmessudag. Sá siður að borða kæsta skötu á Þorláksmessu er ættaður af vesturlandi en hefur á síðari árum breiðst út um allt land. Algengust er Tindabikkja, en hún er botnfiskur sem lifir á 20-1000 metra dýpi, hún hefur styttri hala en aðrar skötutegundir og hefur auk þess gadda sem hún dregur nafn sitt af. Aðeins eru notuð börð skötunar.
Allir geta matreitt skötu en það hin sterka lykt af henni sem fælir fólk frá því að elda hana heima og setja þar jólailm heimilisins í hættu. Skatan er soðin í söltu vatni og borin fram með kartöflum og floti eða smjöri og ekki má gleyma rúgbrauðinu.
Ýmsir taka sig til og sjóða skötu í bílskúrum eða vinnustöðum, bjóða vinum í mat eða þá að félagasamtök sameinast í skötuveislu. Feykir hefur fregnað að Golfklúbbur Sauðárkróks ætli að bjóða upp á skötu fyrir almenning þar sem Jón Dan mun framreiða hnossgætið og fer veislan fram í golfskálanum. Einnig verður skötuveisla á Kaffi Krók svo fólk ætti ekki að missa af neinu á Þorláksmessunni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.