Við sama heygarðshornið

Föstudaginn 29. janúar síðastliðinn á hinu háa Alþingi svarar forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir, undirbúinni fyrirspurn samflokksmanns síns, Þórunnar Sveinbjarnardóttur, sem felur í sér að landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið verði lagt niður í núverandi mynd, nokkuð sem er lengi búið að vera baráttumál fyrst Alþýðuflokksins og nú Samfylkingarinnar, sem tengir þetta baráttu fyrir aðild að Evrópusambandinu.
Í svari sínu vísar forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttir ítrekað til “stjórnarsáttmála” flokkanna tveggja, Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og segir orðrétt, “enda er þetta kirfilega neglt niður í stjórnarsáttmálann og það sem er í stjórnarsáttmálanum hefur auðvitað ríkisstjórnin skyldur til að framkvæma, báðir flokkarnir”
Eftir áratugi í stjórnmálum hlýtur Jóhanna að vita að talsverður munur er á stjórnarsáttmála og yfirlýsingu um samstarf, eins og plaggið heitir í raun og veru.

Og, ef um einhverjar skyldur er að ræða í þessu samstarfi, væri þá ekki nær að forgangsraða í þágu almennings. Í yfirlýsingunni segir m.a. “Markmið allra endurbóta í heilbrigðisþjónustu og almannatryggingakerfi eiga að vera jöfnuður, gott aðgengi, gæði, öryggi og hagkvæmni” og “Dregið verði úr vægi verðtryggingar í lánaviðskiptum”.
Ekki verður betur séð en að Samfylkingin leggi mun meiri áherslu á að koma íslenskri þjóð undir erlend yfirráð en hagsmuni almennings í landinu. Þess ber að minnast að í sitjandi ríkisstjórn sitja þrír ráðherrar, sem sátu í ríkisstjórn Geirs H. Haarde í aðdraganda hrunsins og gætu þurft að svara fyrir ábyrgð sína sem ráðherrar þann tíma.

Í svari Jóhönnu kemur einnig fram að undirbúningur að afsetningu landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytisins sé á fullu í forsætisráðuneytinu og frumvarp komið langleiðina þrátt fyrir andstöðu Vinstri grænna, a.m.k. hluta þeirra eins og hún orðaði það. Hún minnist ekki á að fjölmörg hagsmunasamtök í landbúnaði og sjávarútvegi hafa ályktað gegn þessu, auk sveitarstjórna. Fjölmennur flokksráðsfundur VG samþykkti samhljóða ályktun til varnar landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytinu, þar með talin formaður og varaformaður flokksins.
Samræðustjórnmál Samfylkingarinnar þessa dagana virðast snúast um að beita afli og óvægni gegn öllu og öllum, með hótun um stjórnarslit, til að koma gæluverkefnum sínum í framkvæmd.

En eitt er víst að landsmenn vilja áfram öflugt sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Öflugt eins og ráðuneytið hefur reynst undir stjórn Jóns Bjarnasonar. Hvað sem óskum samfylkingarinnar líður um annað.

Gísli Árnason
Skagafirði

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir