Við sættum okkur ekki við milljarða samdrátt
-Við getum tekið á okkur auknar byrðar sem þjóð á meðan við erum að vinna okkur upp úr öldudalnum en við sættum okkur ekki við milljarða samdrátt í heilbrigðisþjónustu og annarri velferðarþjónustu, framhaldsskólum, háskólum og skertan lífeyri, ef þeim sömu fjármunum sem þannig eru teknir verður varið í gæluverkefni einstakra stjórnmálamanna eins og aðildarumsókn að ESB, sem mikill meirihluti þjóðarinnar er andvígur. Það er kaldhæðnislegt að einmitt í dag, þjóðhátíðardag Íslendinga 17. júní skuli leiðtogaráð Evrópusambandsins hafa tekið ákvörðun um að hefja skuli viðræður við Ísland um inngöngu í sambandið, sagði Bjarni Jónsson í hátíðarræðu sinni á 17. júní í Skagafirði í gær.
Ræðu Bjarna má lesa hér fyrir neðan:
Kæru Skagfirðingar
Í dag höldum við upp á þjóðhátíðardag Íslendinga og minnumst langrar sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar á afmælisdægri þjóðfrelsishétjunnar, Jóns Sigurðssonar. Þetta er í senn mikil fjölskylduhátíð, hátíð barnanna, en einnig brýning um að sjálfstæðisbaráttunni sem tendraði á sýnum tíma eld í þúsundum hjartna um land allt mun aldrei ljúka meðan land byggist. Við þurfum áfram að standa vörð um það sem gerir okkur að þjóð; menningu, þjóðtungu, auðlindirnar, þjóðarvitund og sjálfsvirðingu okkar sem sjálfstæðrar þjóðar. 17. júní er líka baráttudagur.
Íslenskt samfélag gengur í gegnum erfiða tíma þar sem þjóðin þarf að endurmeta gildismat sitt og herða að sér um hríð. Skagafjörður hefur ekki farið varhluta af samdrætti, þó hans gæti hér minna en víða. Landbúnaður og sjávarútvegur, grunnatvinnuvegir héraðsins gegna nú lykilhlutverki við endurreisn íslensks efnahagslífs. Þeir sem áður töluðu niður til þessarra atvinnugreina og töldu þær tilheyra fortíðinni eiga nú eins og aðrir mikið undir því að þeim greinum vegni vel.
Hjarðhegðun, hvort sem er á vinstri eða hægri væng íslenskra stjórnmála er ekki leiðin út úr þeim vanda sem þjóðinni hefur verið komið í og hefur reynst fánýtt leiðarljós. Við eigum engan að elta eins og læmingjar fram af brúninni. Þegar flokkar á alþingi og stjórnvöld reyna að selja þjóðina og auðlindir hennar undir erlent vald, stórþjóða og auðhringa eigum við að rísa upp og segja nei. Þegar vegið er að grunnstoðum þess velferðarkerfis sem við höfum byggt upp á mörgum kynslóðum þá snúumst við einfaldlega til varna öll sem eitt.
Við getum tekið á okkur auknar byrðar sem þjóð á meðan við erum að vinna okkur upp úr öldudalnum en við sættum okkur ekki við milljarða samdrátt í heilbrigðisþjónustu og annarri velferðarþjónustu, framhaldsskólum, háskólum og skertan lífeyri, ef þeim sömu fjármunum sem þannig eru teknir verður varið í gæluverkefni einstakra stjórnmálamanna eins og aðildarumsókn að ESB, sem mikill meirihluti þjóðarinnar er andvígur. Það er kaldhæðnislegt að einmitt í dag, þjóðhátíðardag Íslendinga 17. júní skuli leiðtogaráð Evrópusambandsins hafa tekið ákvörðun um að hefja skuli viðræður við Ísland um inngöngu í sambandið.
Sjálfstæðið er dýrmætasta auðlindin. Á vegi til framtíðar þurfum við að skilgreina gildi okkar upp á nýtt, sameinast um þau grunngildi sem gera Íslendinga að þjóð, Skagfirðinga að Skagfirðingum. Í Skagafirði búum við að miklum auðlindum lands og lífs. Hér er öflugt mannlíf og gott að búa. Fá svæði á landinu búa af eins fjölbreyttu mannlífi og menningarlífi. Við höfum búið okkur gott fjölskylduvænt samfélag sem við þurfum að hlúa að og varðveita. Hér býr fólk í návígi við fjölskyldu og vini. Hér hverfur enginn í fjöldan, allir hafa hlutverk.
Skagfirðingar eru af náttúrunnar hendi lífsglaðari og hamingjusamari en aðrir menn. Það er einmitt eitt af því sem gerir okkur að skagfirðingum. Það fólk sem flytur í fjörðinn verður áþreifanlega vart við þessa sérstöðu. Um leið og við stöndum vörð um stöðu Íslendinga sem sjálfstæðrar þjóðar í eigin landi skulum við einnig standa vörð um allt sem gerir Skagfirðinga að Skagfirðingum. Þá mun okkur vel farnast.
Skín við sólu Skagafjörður
Gleðilega þjóðhátíð
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.