Verð á dreifingu rafmagns hækkar

rarik_logoVerðskrá RARIK fyrir dreifingu á raforku hækkar um 10% að jafnaði hinn 1. janúar 2010. Þá hækkar virðisaukaskattur á almenna raforkunotkun úr 24,5% í 25,5%.

Á heimasíðu RARIK kemur fram að hækkunin sé svolítið mismunandi eftir verðskrárliðum og er hækkunin heldur minni hjá stærri notendum  en hjá þeim smærri. Hækkunin er fyrst og fremst tilkomin vegna verðlagshækkana, hækkana á aðföngum og gengisþróunar. Þrátt fyrir þessa hækkun verðskrár fullnýtir RARIK sér ekki þær tekjuheimildir sem fyrirtækið hefur skv. lögum. Hjá þeim viðskiptavinum sem njóta niðurgreiðslna úr ríkissjóði verður hækkunin meiri, þar sem niðurgreiðslur, sem ákvarðaðar eru í fjárlögum, hafa ekki verið auknar undanfarin ár.

Þannig mun reikningur fyrir dreifingu raforku til heimila á hitaveitusvæðum í þéttbýli sem nota 4.000 kWst á ári hækka um 11% eða um 350 krónur á mánuði. Dreifingarkostnaður til heimila í dreifbýli sem  eru með niðurgreidda rafhitun og nota 40.000 kWst á ári hækkar um 2.350 krónur á mánuði, eða 21%.

Við gengisfall krónunnar á árunum 2008 og 2009  urðu öll aðföng dýrari vegna endurnýjunar og reksturs rafdreifikerfa, erlend lán stórhækkuðu en nú hefur stjórn RARIK samþykkt aðhaldssama rekstraráætlun fyrir árið 2010 þar sem gert er ráð fyrir því að rekstrarkostnaður verði óbreyttur í krónutölu frá árinu 2008, þegar orkuflutningur og töp í dreifikerfinu eru undanskilin.

Sjá nánar á heimasíðu RARIK

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir