Velferðastjórn?

Gunnar Bragi Sveinsson alþingismaður

Áhrifa hinnar norrænu „velferðastjórnar“ Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs er nú þegar farið að gæta. Þegar frumvarp til fjárlaga var lagt fram var ljóst að íbúar landsbyggðinnar áttu að blæða fyrir þensluna sem þeir kynntust ekki. Þrátt fyrir kröftug mótmæli ákvað hin norræna „velferðastjórn“ að höggva þar sem síst skyldi og breyta ekki frumvarpinu.

Áhrifa  stjórnarstefnu „velferðastjórnarinnar“ er farið að gæta þar sem uppsagnir eru á heilbrigðisstofnunum, hjúkrunarheimilum lokað, vegaframkvæmdir frystar svo eitthvað sé nefnt. Að ekki sé talað um óvissuna sem „velferðastjórnin“ hefur skapað varðandi undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar. Vera má að frjálshyggjan hafi strandað en hún er þá væntanlega á sömu eyðiey og sósíalisminn. Heiðarleiki, skynsemi, samvinna og hógværð mun mestu skipta á næstu árum þegar hið nýja Ísland er mótað. Átök milli frjálshyggju og sósíalisma munu engu skila.

Hjá Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi hafa fjórtán starfsmenn fengið uppsagnarbréf en um leið boð um endurráðningu með styttri vinnutíma. Fram hefur komið að sparnaðaraðgerðirnar muni hafa áhrif á þjónustu stofnunarinnar sem kemur ekki á óvart, verið er að skerða þjónustuna. Á Sauðárkróki mun stöðugildum fækka, fæðingadeildinni verður lokað og ýmis önnur þjónusta skerðast. Allar fæðingar munu því fara fram á Akureyri eða í Reykjavík með öllu því óhagræði sem af því hlýst. Á Flateyri á að loka Hjúkrunarheimilinu Sólborg og flytja íbúana gegn vilja sínum í aðrar sýslur, allt í nafni sparnaðar að kröfu „velferðastjórnarinnar“. Það er einkennilegt að öll loforðin og ræðurnar sem ráðherrar og þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna hafa haft uppi eru nú öll gleymd.

Er það virkilega þannig að stjórnvöld hafa gefist uppá fólkinu sem býr á hjúkrunarheimilunum eða þarf á þjónustu heilbrigðisstofnanana að halda og fara þess vegna fram með ósanngjarnar kröfur. Heilbrigðisráðherra hefur væntanlega ekki heimsótt þessara stofnanir og veit því ekki hversu mikilvægu hlutverki þær gegna í hverju samfélagi.

Forveri Álfheiðar Ingadóttur heilbrigðisráðherra dró til baka þær ákvarðanir sem heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins hafði tekið og vonuðust íbúar og starfsmenn eftir því að hlustað yrði á þeirra tillögur og óskir. Heilbrigðisráðherra hinnar „norrænu velferðastjórnar“ , Álfheiður Ingadóttir hlustar hins vegar ekki, hún fer sínu fram hvað sem fólkið segir.

Ég get ekki annað en hvatt íbúa landsbyggðarinnar til að mótmæla hástöfum aðför ríkisstjórnarinnar að byggðlögunum þar sem við viljum búa. Nú er vegið að undirstöðum samfélaganna með því að skerða grunnþjónustuna. Velferðastjórn er því í besta falli blekking.

Gunnar Bragi Sveinsson

Alþingismaður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir