Varmahlíðarskóli keppir til úrslita í skólahreysti
Varmahlíðarskóli sigraði 6. riðil í undankeppni skólahreystis og er því búið að tryggja sér sæti í úrslitum sem fara fram í Laugardalshöll 21. maí. Á heimasíðu skólans segir að í upphafi keppni hafi strax orðið ljóst að Varmahlíðarskóli ætlaði sér sigur en hann var efstur í tveimur af fjórum einstaklingsgreinum áður en kom að hinni æsispennandi hraðaþraut sem vannst með yfirburðum.
Fram kemur í frétt skólans að þetta hafi verið sjötta árið í röð sem Varmahlíðarskóli tryggir sér þátttöku í úrslitum. Alls átta sinnum hefur hann komist í úrslit af þeim tólf skiptum sem skólinn hefur tekið þátt.
„Við erum afar stolt af árangri okkar krakka sem hafa lagt mikið á sig á æfingum vetrarins, undir öruggri leiðsögn Línu íþróttakennara sem af miklum metnaði hefur byggt upp menningu og metnað í tengslum við skólahreysti.
Fulltrúar skólans eru: Arndís Katla Óskarsdóttir, Hákon Kolka Gíslason, Ronja Guðrún Kristjánsdóttir og Trausti Ingólfsson. Til vara eru: Ísak Agnarsson og Bríet Bergdís Stefánsdóttir.
Við bíðum spennt eftir úrslitakeppninni, hún verður í beinni útsendingu á RÚV, 21. maí kl. 20:00. Öflug stuðningssveit unglingastigs Varmahlíðarskóla fylgir þátttakendum suður yfir heiðar og hvetur þau til dáða. Við hin sameinumst við skjáinn og sendum þeim baráttustrauma. Áfram Varmahlíðarskóli!“ segir á Varmahlidarskoli.is.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.