Valgerður Hjaltalín fær viðurkenningu í hugmyndsamkeppni Faxaflóahafna

Valgerður Jakobína Hjaltalín. Mynd: fnv.is

Á Heimasíðu FNV er sagt frá því að þann 11. desember voru veitt verðlaun í hugmyndasamkeppni Faxaflóahafna sf. um skipulag gömlu hafnarinnar og Örfiriseyjar í Reykjavík. Þar vann Valgerður Hjaltalín, nemandi við FNV, til verðlauna fyrir tillögu sína.

Athöfnin fór fram í Víkinni, Sjóminjasafninu á Grandagarði. Keppnin var í tveimur hlutum, A-hluta sem var ætlaður fagaðilum og í samstarfi við Arkitektafélag Íslands og B-hluta sem var opinn öllum. Markmið samkeppninnar var að „fá fram frjóar og fjölbreyttar hugmyndir um framtíðarnýtingu og framtíðarskipulag Gömlu hafnarinnar“. Í dómnefnd sátu sjö manns, þar af þrír frá Arkitektafélaginu, en Júlíus Vífill Ingvarsson borgarfulltrúi var formaður dómnefndar. Heildarfjárhæð verðlauna voru 14 m.kr. og þar af runnu 2 m.kr. í B-hluta.

Valgerður tók þátt í námskeiði Myndlistaskóla Reykjavíkur í ágúst 2009, en námskeiðið hét „Myndlist og arkitektúr“ og kennarar voru bæði myndlistarmenn og arkitektar. Viðfangsefni nemenda var hugsað út frá samkeppni Faxaflóahafna og voru hugmyndirnar sendar í keppnina. Ein af þeim var hugmynd Völu. Alls bárust 39 tillögur í B-hlutann, þar af fengu 8 tillögur verðlaun. Tillaga Völu var um gerð leikvallar á Granda og í umsögn dómnefndar segir að framsetning sé „frjálsleg en skýr“. Verðlaunin sem hún fékk voru 200.000 krónur.

Valgerður Hjaltalín er á sautjánda aldursári, dóttir Sigríðar K. Þorgrímsdóttur sérfræðings hjá Byggðastofnun og Þórs Hjaltalíns minjavarðar.

/fnv.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir